Trump talaði fyrir sameiningu í landinu

Donald Trump, fyrrum forseti Bandaríkjanna og að öllum líkindum sá …
Donald Trump, fyrrum forseti Bandaríkjanna og að öllum líkindum sá næsti. AFP/Brendan Smialowski

Donald Trump forsetaframbjóðandi flutti í nótt fyrstu ræðu sína opinberlega síðan að hann var skotinn í eyrað á laugardaginn. Fór hann um víðan völl í ræðu sinni. Hann talaði fyrir sameiningu í landinu, en gagnrýndi demókrata og núverandi forseta.

Lands­fund­ur re­públi­kana hef­ur staðið yfir frá því á mánu­dag en lauk í kvöld með ræðu Trumps í Milwaukee-borg í Bandaríkjunum.

Margt var um manninn á landsfundi repúblikana.
Margt var um manninn á landsfundi repúblikana. AFP/Alex Wroblewski

Guð í liði repúblikana

Fjölmargir ræðumenn kvöldsins gáfu í skyn að það hefði verið Guð sem bjargaði honum frá byssuskotinu sem náði aðeins að skadda eyrað á Trump.

Trump svaraði þessu í ræðu sinni og sagði „Ég hafði Guð með mér í liði (e. I had God on my side)“

Ivanka Trump, dóttir forsetaframbjóðandans, og eiginkona hans, Melania, stigu á …
Ivanka Trump, dóttir forsetaframbjóðandans, og eiginkona hans, Melania, stigu á svið með honum við mikinn fögnuð viðstaddra. Lítið hefur sést til þeirra mæðgna í kosningabaráttunni hingað til. AFP/Brendan Smialowski

Forseti allra Bandaríkjanna

„Saman munum við hefja nýtt tímabil öryggis, velsældar og frelsis fyrir borgara af öllum kynþáttum, trúarbrögðum, litarhættum og trúarbrögðum,“ sagði Trump.

„Lækna verður þessar deilur og sundrungu í samfélagi okkar,“ sagði hann jafnframt.

„Ég er að bjóða mig fram til forseta fyrir öll Bandaríkin, ekki helming Bandaríkjanna,“ sagði Trump og bætti við að það yrði einungis hálfur sigur að vinna kosningarnar fyrir helming Bandaríkjamanna.

Fundargestur með bandaríska fánann á eyranu.
Fundargestur með bandaríska fánann á eyranu. AFP/Patrick T. Fallon

Gömul stef

Ekki leið á löngu þangað til Trump varð sjálfum sér samur og gagnrýndi harðlega demókrata í landinu og Joe Biden Bandaríkjaforseta. 

Þá rifjaði hann upp gamalt stef um að brögð hefðu verið í tafli í síðustu kosningum, sem hann tapaði fyrir Biden.

J.D. Vance varaforsetaefni Trumps.
J.D. Vance varaforsetaefni Trumps. AFP/Brendan Smialowski

Allt frá ýkjum til haugalyga

CNN fréttastofan tók saman á þriðja tug skipta þar sem Trump er sagður fara með rangt mál í ræðu sinni. Í sumum tilvikum hafi hann ýkt sannleikann, en í öðrum sagt ósatt. 

Voru þar talin málefni líkt og efnahagsmál, innflytjendamál, utanríkisstefna Bandaríkjanna og þeim sem tengjast glæpum í landinu.

Trump stendur fyrir aftan hjálm og jakka sem var í …
Trump stendur fyrir aftan hjálm og jakka sem var í eigu slökkviliðsmannsins Corey Comperatore, sem lét lífið í árásinni á forsetaframbjóðandann á laugardaginn. AFP/Jim Watson

Trump hafi þá sagt að við síðustu forsetaskipti, þegar Biden tók við af Trump, hafi verið friður um allan heim. 

Demókratar hafi svindlað í síðustu kosningum, og að aldrei hafi verið eins mikil verðbólga í sögu Bandaríkjanna eins og undir stjórn Bidens.

AFP/Angela Weiss
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert