Obama ekki enn lýst yfir stuðningi við Harris

Obama er ekki búinn að lýsa opinberlega yfir stuðningi við …
Obama er ekki búinn að lýsa opinberlega yfir stuðningi við Harris. AFP/Elijah Nouvelage

Það tók ekki langan tíma fyrir ríkisstjóra og þingmenn Demókrataflokksins, ásamt öflugum fjáröflunarhópum sem styðja þá, að lýsa yfir stuðningi við Kamölu Harris sem forsetaframbjóðanda flokksins.

Þó eru menn eins og Barack Obama sem hafa enn ekki lýst yfir stuðningi við hana.

Dagblaðið Wall Street Journal greinir frá. 

Hringdi í lykilmenn í gær

Á landsfundi demókrata í næsta mánuði verður forsetaframbjóðandi flokksins útnefndur og Kamala Harris er sú eina í framboði að svo stöddu.

Veigamiklir stjórnmálamenn sem höfðu verið orðaðir við framboð ef Biden myndi víkja hafa flestallir lýst yfir stuðningi við Harris.

Að sögn fjölmiðla vestanhafs þá eyddi Kamala Harris um það bil 10 klukkustundum í gær í að hringja í þingmenn og valdamenn í flokknum til þess að tryggja stuðning við sig.

Kamala Harris stefnir á Hvíta húsið.
Kamala Harris stefnir á Hvíta húsið. AFP/Brendan Smialowski

Með stuðning helstu ríkisstjóra

Meðal þeirra sem hafa lýst yfir stuðningi við Kamölu Harris eru Clinton-hjónin og Joe Biden Bandaríkjaforseti.

Af þeim sem höfðu verið orðaðir við mögulegt forsetaframboð og hafa nú lýst yfir stuðningi við Harris eru Josh Shapiro, ríkisstjóri Pennsylvaníu, Gretchen Whitmer, ríkisstjóri Michigan, Gavin Newsom, ríkisstjóri Kaliforníu, Pete Buttigieg, samgönguráðherra Bandaríkjanna, J.B. Pritzker, ríkisstjóri Illinois, Andy Beshear, ríkisstjóri Kentucky, og Roy Cooper, ríkisstjóri Norður-Karólínu.

Mörg af þessum nöfnum eru nú orðuð við það að verða varaforsetaefni Harris, fái hún útnefninguna. Þá hafa einnig miklir styrktaraðilar flokksins lýst yfir stuðningi við hana eins og feðgarnir Alex Soros og George Soros.

Josh Shapiro, ríkisstjóri Pennsylvaníu.
Josh Shapiro, ríkisstjóri Pennsylvaníu. AFP/Getty Images/Anna Moneymaker

Ekkert heyrst í Obama, Pelosi og Schumer

Enn eru þó nokkrir þungavigtarmenn sem eiga eftir að lýsa yfir stuðningi við Harris. Má þar nefna Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, Nancy Pelosi, fyrrverandi forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, Chuck Schumer, leiðtogi meirihlutans í öldungadeildinni, og Hakeem Jeffries, leiðtogi demókrata í fulltrúadeildinni.

Talsvert fleiri þingmenn í flokknum hafa lýst yfir stuðningi við Harris og má þar nefna Mark, Kelly, öldungadeildarþingmann frá Arizona, James Clyburn, fulltrúadeildarþingmann frá Suður-Karólínu, og Elizabeth Warren, öldungadeildarþingmann frá Massachusetts.

Gert er ráð fyrir því að stuðningsyfirlýsingum muni halda áfram að rigna yfir Harris í dag og næstu daga. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert