Í kvöld mun Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, ávarpa Bandaríkjaþing. Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna, mun ekki vera viðstödd.
Klukkan 18 að íslenskum tíma mun Netanjahú ávarpa Bandaríkjaþing til að tryggja áframhaldandi stuðning beggja flokka við stríðsrekstur Ísraels gegn hryðjuverkasamtökunum Hamas.
Athygli hefur vakið að Kamala Harris mun ekki vera viðstödd, en varaforsetar eiga að vera viðstaddir þegar báðar þingdeildir koma saman. Samkvæmt framboðsteymi hennar þá var hún bókuð annars staðar. Hún mun samt sem áður eiga einkafund með Netanjahú á meðan hann verður í Bandaríkjunum.
CBS News greinir frá.
Netanjahú hefur ávarpað Bandaríkjaþing þrisvar sinnum áður og verður með þessu fyrsti þjóðarleiðtoginn í sögunni sem ávarpar þingið fjórum sinnum.
Ræðan hans fellur að einhverju leyti í skugga mikilla vendinga í stjórnmálunum vestanhafs. Innan við tvær vikur eru síðan að banatilræði var við Donald Trump og um helgina dró Joe Biden Bandaríkjaforseti framboð sitt til baka. Lýsti hann þess í stað yfir stuðningi við Kamölu Harris.
„Á tímum stríðs og óvissu skiptir miklu máli að óvinir Ísraels viti að Bandaríkin og Ísrael standa saman í dag, á morgun og alltaf,“ sagði Netanjahú í yfirlýsingu.
Þingleiðtogar demókrata og repúblikana í báðum þingdeildum buðu Netanjahú sameiginlega að ávarpa Bandaríkjaþing til að sýna að stuðningur við Ísrael væri hafinn yfir flokkadrætti.
Samt sem áður hafa einhverjir þingmenn Demókrataflokksins heitið því að sniðganga ávarpið og að minnsta kosti einn þingmaður Repúblikanaflokksins. Þá er búið að auka löggæslu og viðbúnað í Washington-borg vegna fyrirhugaðra mótmæla.
Netanjahú mun funda með Joe Biden á fimmtudaginn og með Donald Trump á föstudaginn.