Fá ekki að fylgjast með kosningum í Venesúela

Nicolás Maduro á kosningafundi í vikunni.
Nicolás Maduro á kosningafundi í vikunni. AFP

Panama sakaði í kvöld stjórn­völd í Venesúela um að hindra, að flug­vél, með fjóra fyrr­ver­andi for­seta landa í Suður-Am­er­íku, kæmi til lands­ins. 

José Raúl Mul­ino, for­seti Panama, sagði að flug­vél frá Copa Air­lines fengi ekki að yf­ir­gefa Panama vegna þess að Venesúela hefði bannað henni að koma inn í loft­rými lands­ins.

For­set­arn­ir fyrr­ver­andi, sem all­ir hafa gagn­rýnt stjórn­ar­hætti Nicolás Maduros for­seta Venesúela ætluðu að fylgj­ast með kosn­ing­um í Venesúela, sem fara fram eft­ir tvo daga.

Um er að ræða Mireya Moscoso, fyrr­um for­seta Panama, Migu­el Ángel Rodrígu­ez, fyrr­ver­andi for­seta Kosta Ríka, Jor­ge Quiroga, fyrr­um for­seta Bólívíu og Vicente Fox, fyrr­um for­seta Mexí­kó.  

Di­os­da­do Ca­bello, formaður stjórn­ar­flokks­ins í Venesúela, sagði fyrr í vik­unni, að for­set­arn­ir fyrr­ver­andi yrðu rekn­ir úr landi ef þeir kæmu þangað, og sagði þá vera óvini Venesúela.

Stjórn­völd í Venesúela drógu í vik­unni til baka boð til Al­berto Fern­and­ez, fyrr­um for­seta Arg­entínu, um að fylgj­ast með kosn­ing­un­um eft­ir að hann hvatti Maduro til að sætta sig við úr­slit­in, jafn­vel þótt hann tapaði. 

Áður hafa stjórn­völd í Venesúela aft­ur­kallað boð til Evr­ópu­sam­bands­ins um að senda ef­ir­lits­menn en féllust á að eft­ir­lits­menn frá Sam­einuðu þjóðunum og banda­rísku stofn­un­inni Cart­er Center fái að fylgj­ast með kosn­ing­un­um. 

Maduro, sem er 61 árs, sæk­ist eft­ir því að verða kos­inn for­seti þriðja sex ára kjör­tíma­bilið í röð. Hann hef­ur verið sakaður um sí­vax­andi ein­ræðistil­b­urði og of­sókn­ir í garð stjórn­ar­and­stæðinga. 

Rík­is­stjórn hans gerði sam­komu­lag við stjórn­ar­and­stöðuna á síðasta ári um að halda frjáls­ar kosn­ing­ar í ár og alþjóðleg­um eft­ir­lits­mönn­um yrði leyft að fylgj­ast með þeim. Varð þetta til þess að banda­rísk stjórn­völd drógu úr viðskiptaþving­un­um gagn­vart Venesúela.

En Maduro hef­ur ekki upp­fyllt öll þau skil­yrði sem sett voru og stofn­an­ir hliðholl­ar hon­um bönnuðu Maríu Cor­inu Machado, leiðtoga stjórn­ar­and­stöðunn­ar, að bjóða sig fram til for­seta. Í stað henn­ar er lítt þekkt­ur fyrr­um sendi­herra, Ed­mundo Gonzá­lez Urrutia, sem er 74 ára í fram­boði og skoðanakann­an­ir benda til þess að hann muni sigra með yf­ir­burðum í kosn­ing­un­um.

En sér­fræðing­ar, eft­ir­lits­menn og marg­ir stuðnings­menn stjórn­ar­and­stöðunn­ar ef­ast um að Maduro, sem reiðir sig á her­inn, dóm­stóla, rík­is­stofn­an­ir og kjör­stjórn­ir hliðholl­ar hon­um, muni leyfa þau úr­slit. 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert