FBI staðfestir að byssukúla hafi hæft Trump

Leyniþjónustan fjarlægir Trump af sviðinu eftir skotárásina í Pennsylvaníu.
Leyniþjónustan fjarlægir Trump af sviðinu eftir skotárásina í Pennsylvaníu. AFP/Rebecca Droke

Bandaríska alríkislögreglan FBI staðfesti í kvöld, að byssukúla hafi í raun lent í eyra Donalds Trumps, forsetaframbjóðanda Repúblikanaflokksins, fyrir hálfum mánuði. 

„Það sem lenti í eyra Trumps fyrrum forseta var kúla, annað hvort heil eða brot úr henni, sem skotið var úr byssu hins grunaða," segir í yfirlýsingu FBI að því er kemur fram í frétt AP fréttastofunnar.

Yfirlýsingin kemur í kjölfar loðinna ummæla Cristhoper Wray forstjóra FBI fyrr í vikunni sem virtust gefa til kynna efasemdir um að Trump hefði í raun orðið fyrir skoti. 

Trump og stuðningsmenn hans brugðust ókvæða við þeim ummælum og þau blésu í glæður samsæriskenninga sem settar hafa verið fram af hálfu beggja fylkinga hins pólitíska litrófs í Bandaríkjunum en upplýsingar frá bandarískum stofnunum um atburðinn hafa verið af skornum skammti.  

Fram til þessa hafa lögreglustofnanir, sem rannsakað hafa skotárásina, þar á meðal FBI og öryggisþjónustan, ítrekað neitað að veita upplýsingar um hvað hafi valdið áverkunum sem Trump hlaut. Framboð Trumps hefur einnig neitað að birta læknaskýrslur frá sjúkrahúsinu þar sem hann fékk fyrstu aðhlynningu eða fallist á að læknar sem stunduðu hann veiti fjölmiðlum viðtöl. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert