Fjöldi fólks hefur lýst áhyggjum yfir ummælum sem Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, lét falla á viðburði sem íhaldshópurinn Turning Point Action stóð fyrir á föstudag.
Þar fullyrti hann að ef hann yrði kjörinn forseti Bandaríkjanna í forsetakosningunum í nóvember þyrfti fólk ekki að kjósa aftur eftir fjögur ár.
„Kristnir, farið út og kjósið, bara í þetta sinn. Þið munuð ekki þurfa að gera þetta lengur. Fjögur ár í viðbót. Vitið þið hvað, þetta verður lagað, þetta verður í lagi. Þið munuð ekki þurfa að kjósa aftur fallega kristna fólkið mitt. Ég elska ykkur kristna fólk. Ég er kristinn. Ég elska ykkur, farið út, þið verðið að fara út og kjósa. Eftir fjögur ár þurfið þið ekki að kjósa aftur, við látum laga þetta svo vel að þið munuð ekki þurfa að kjósa,“ sagði Trump meðal annars í ræðu sinni.
Kosningateymi Kamölu Harris, líklegs forsetaefnis Demókrataflokksins, gaf frá sér yfirlýsingu á X í kjölfarið þar sem segir meðal annars að lýðræðið sé undir árás af „glæpamanninum“ Donald Trump.
Þá birti Adam Schiff, þingmaður demókrata í fulltrúardeild Bandaríkjanna, færslu á X þar sem hann segir „Í ár er lýðræðið okkar í hættu, og ef við ætlum að bjarga því verðum við að kjósa gegn valdaboðsstefnu.“
Þá hafa nokkrir repúblikanar komið flokksbróður sínum til varna og segja að um augljóst grín sé að ræða.
Tom Cotton öldungardeildarþingmaður sagði við CNN fréttastöðina „Ég held að hann sé augljóslega að gera grín að því hversu slæmir hlutir hafa verið undir stjórn Joe Biden og hversu góðir þeir yrðu ef við kjósum Trump aftur í Hvíta húsið.“
Stuttu áður en Trump lét ummælin falla hvatti hann kristið fólk til að mæta á kjörstað og nýta kosningaréttinn þar sem kristið fólk væri ekki nógu duglegt að nýta kosningaréttinn.