Níu ísraelskir hermenn eru í haldi grunaðir um að hafa nauðgað palestínskum fanga sem var í haldi í Suður-Ísrael.
Talsmaður hersins segir við AFP að hermennirnir hafi verið „teknir í yfirheyrslu“ vegna „meintrar misnotkunar“ sem á að hafa átt sér stað í Sde Teiman-herstöðinni, þar sem hryðjuverkamenn sem handteknir eru á Gasatröndinni eru vistaðir.
Flytja þurfti fangann á spítala fyrir um mánuði síðan. Times of Israel og KAN, ríkisútvarp Ísraels, greina frá því að áverkar á fanganum hafi bent til þess að brotið hefði verið á honum kynferðislega.
New York Times hefur eftir lögmanni þriggja hermanna að þeir hafi verið yfirheyrðir vegna alvarlegs kynferðisofbeldis. Lögmaðurinn neitar þó sök fyrir hönd skjólstæðinga sinna.
Ísraelskir borgarar hafa mótmælt fyrir utan herstöðina þar sem hermennirnir níu eru í haldi til að sýna þeim stuðning.
Þá hafa einhverjir brotist inn í fangageymsluna.
Sde Teiman-herstöðin hefur verið notuð til að halda Palestínumönnum föngnum sem hafa verið handteknir á Gasaströndinni.
Palestínumaðurinn var þar í haldi þar sem hann er grunaður um að vera hryðjuverkamaður.
Frá því að átök brutust út milli Hamassamtakanna og Ísraelshers á Gasa hafa stofnanir Sameinuðu þjóðanna, hin ýmsu réttindasamtök, embættismenn á Gasa og fyrrverandi fangar lýst misnotkun af hálfu ísraelskra hermanna og fangavarða.
Ísraelsher hefur sagt að högun fangavistunar í landinu sé í samræmi við alþjóðalög.
Palestínski fangaklúbburinn, réttindasamtök palestínskra fanga í Ísrael, hefur einnig sakað fangaverðina um að beita fangann kynferðisofbeldi.
„Þetta er nýr nauðgunarglæpur sem framinn er gegn fanga í Sde Teiman-búðunum af hópi fangavarða,“ sagði Abdullah Al-Zaghari, yfirmaður félagasamtakanna, í samtali við AFP.