Yfir hundrað gróðureldar í Króatíu

Mikill reykur hefur verið á dreifingu víða um svæðið.
Mikill reykur hefur verið á dreifingu víða um svæðið. Ljósmynd/Þórhallur Heimisson

Balkanskagaríkin glíma nú við mikla gróðurelda sem hafa blossað upp vegna mikils hita, vinds og langvarandi þurrks. Slökkviliðsmenn í Króatíu sögðu daginn í dag vera erfiðasta daginn hingað til á þessari árstíð. 

Brunamálayfirvöld í Króatíu greindi frá því að síðasta sólarhring hafi þau brugðist við yfir 100 eldum og að yfir 1.000 slökkviliðsmenn og 20 flugvélar hafi komið að slökkvistarfinu. Í Norður-Makedóníu blossuðu upp um 66 gróðureldar á síðasta sólarhring, en Norður-Makedónía gæti þurft að leita aðstoðar frá Atlantshafsbandalaginu til að berjast við eldana. 

ABC greinir frá

Maður grunaður um að hafa kveikt eldinn 

Alvarlegasta atvikið í Króatíu átti sér stað nálægt bænum Tucepi á suðurströndinni, þar sem einn slökkviliðsmaður slasaðist. Sterkur vindur á nóttunni gerði erfitt fyrir að ráða niðurlögum eldsins sem teygði sig yfir nokkra kílómetra.

Lögregla handtók 65 ára gamlan mann sem er grunaður um að hafa óvart kveikt eldinn þegar hann var að vinna við býflugnabúin sín. Hann er ákærður fyrir að stofna almannaöryggi í hættu.

Margir íbúar upplifðu svefnlausa nótt og sumir yfirgáfu heimili sín að sögn króatíska ríkisútvarpsins HRT. Rafmagn fór af og nokkrar sprengingar heyrðust frá gaskútum. 

Reyna að bjarga þekktum þjóðgarði

Slökkviliði tókst að ná stjórn á eldinum í nokkrar klukkustundir í dag áður en hann blossaði upp aftur og breiddist út á afskekkt svæði í nærliggjandi Biokovo-þjóðgarði. Fyrir norðan, nálægt bænum Sibenik, áttu slökkviliðsmenn í erfiðleikum með að koma í veg fyrir að eldurinn næði til Krkaþjóðgarðsins, sem er þekktur fyrir sína fallegu fossa. 

Árviss hitabylgja hefur orsakað elda víðs vegar um Balkanskaga og suðurhluta Evrópu á háannatíma ferðamannatímabilsins. Lönd eins og Norður-Makedónía, Búlgaría og Albanía hafa öll leitað aðstoðar erlendis frá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert