Sigrihrósandi mótmælendur hafa tekið yfir heimili Sheikh Hasina, sem sagði af sér embætti forsætisráðherra Bangladess og flúði land fyrr í dag, eftir að þúsundir mótmælenda réðust inn í heimili hennar.
Á þaki glæsilegs heimilis Hasina fögnuðu í dag fjölmargir mótmælendur og veifuðu fána Bangladess. Nýttu aðrir tækifærið og hefndu sín með því að vinna skemmdarverk á styttu af föður hennar, Sheikh Mujibur Rahman, sem vann að sjálfstæðisbaráttu landsins árið 1971.
Hundruð mótmælenda æddu þá að alþingishúsinu í Bangladess og gengu þar illa um. Margir stukku á borð og settu af stað það sem talið er hafa verið reyksprengjur.
Hershöfðingi Bangladess, Waker-Uz-Zaman, hefur tilkynnt í útsendingu ríkissjónvarps þar í landi að herinn muni mynda bráðabirgðastjórn í kjölfar afsagnar Hasina.
„Ég er svo glaður að búið er að frelsa landið okkar,“ er haft eftir einum mótmælanda í umfjöllun fréttastofu AFP. Líkir hann atburðarrás undanfarinna daga við baráttuna fyrir sjálfstæði árið 1971, sem markaði mikil tímamót í sögu Bangladess.
„Búið er að frelsa okkur undan einræði. Þetta er Bengal-uppreisn, það sem við sáum árið 1971 og erum nú að sjá árið 2024,“ segir hinn 21 árs Sazid Ahnaf.
Mikil ólga hefur ráðið ríkjum í Bangladess síðan í júlí, en þá tóku stúdentar að mótmæla kvótakerfi sem veitir ættingjum hermannanna greiðari aðgang að rúmlega helmingi opinberra starfa.