Hver er Tim Walz?

Tim Walz er varaforsetaefni Demókrataflokksins í komandi forsetakosningum.
Tim Walz er varaforsetaefni Demókrataflokksins í komandi forsetakosningum. AFP/Jim Watson

Tim Walz, varaforsetaefni Kamölu Harris, hefur komið um víðan völl á sinni starfsævi. 

Walz var í þjóðvarðsveit Bandaríkjanna í 24 ár, starfaði sem kennari í Kína, Suður-Dakóta og í Nebraska, áður en hann hóf stjórnmálaferil sinn. 

Um miðjan tíunda áratuginn flutti hann til Minnesota með eiginkonu sinni, heimaríkis hennar, þar sem hann kenndi við menntaskóla og þjálfaði fótboltalið skólans. Hann varð svo þingmaður innan ríkisins í tólf ár og var kjörinn ríkisstjóri Minnesotaríkis árið 2018. 

Walz hefur verið nokkuð frjálslyndur í stjórnartíð sinni í Minnesota. Hefur hann undirritað lög er varða afglæpavæðingu kannabiss, rétt til þungunarrofs, rétt til fæðingarorlofs og strangari skotvopnalöggjöf. 

Repúblikanar „skrýtnir“

Harris vonast líklega til þess að tilkoma Walz í kosningateymi hennar muni auka líkurnar á því að vinna Michigan, Pennsylvaníu og nágrannaríkið Wisconsin sem gæti reynst mjög mikilvægt fyrir demókrata til þess að halda Hvíta húsinu. 

Walz hefur ekki verið sérstaklega þekktur utan heimaríkisins síðustu ár, en undanfarnar vikur hóf hann að gagnrýna Donald Trump og varaforsetaefni hans, J.D. Vance, sem hefur vakið mikla lukku á meðal demókrata. 

Meðal annars tók hann á því að kalla helstu fulltrúa repúblikana „skrýtna“ sem er orðræða sem Harris hefur sjálf tekið upp í kosningabaráttu sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert