Svo virðist sem Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna og forsetaefni demókrataflokksins, haldi áfram að auka forskot sitt á Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseta í könnunum.
Í nýrri könnun New York Times og Siena-háskólans sem birtist í dag kemur fram að Harris hafi forskot í þremur lykilríkjum vestanhafs, Michigan, Pennsylvaníu og Wisconsin. Harris leiðir með fjórum prósentustigum og mælist með 50% fylgi en Trump með 46%.
Um er að ræða fjölmennustu ríki miðvesturríkja Bandaríkjanna en talið er líklegt að úrslitin í þeim muni ráða úrslitum forsetakosninganna í nóvember.
Niðurstöður könnunarinnar marka nokkurn viðsnúning en áður en að Joe Biden Bandaríkjaforseti hætti við framboð sitt til endurkjörs hafði Donald Trump ýmist leitt kannanir í ríkjunum þremur eða hlotið álíka mikið fylgi og Biden.
Þá sýndi könnunin að meirihluti kjósenda treysti Trump betur fyrir efnahags- og innflytjendamálum en að mikill meirihluti treysti Harris hinsvegar fyrir ákvarðanatöku þegar kemur að þungunarrofi.
Þá hefur hlutfall þeirra sem líta Harris jákvæðum augum aukist um 10% í Pennsylvaníu á aðeins mánuði.
Kjósendur sögðust álíta hana gáfaðri en Trump og hafa betri skapgerð til að stjórna.