Þyrlusaga Trumps var uppspuni

Trump sagði ævintýralega sögu um þyrluferð á blaðamannafundi í vikunni.
Trump sagði ævintýralega sögu um þyrluferð á blaðamannafundi í vikunni. AFP/Brandon Bell

Fyrrverandi borgarstjóri San Francisco, Willie Brown, segir frásögn Donalds Trumps fyrrverandi Bandaríkjaforseta af þyrluferð sem þeir fóru í saman uppspuna.

Á blaðamannafundi á fimmtudaginn hélt Trump því fram að þyrla sem hann og Brown hefðu verið farþegar í hefði farið „niður“ í miðju flugi og að Brown hefði orðið „dálítið áhyggjufullur“.

„Við héldum að þetta væru kannski endalokin,“ sagði Trump og bætti við: „Við vorum í þyrlu og þetta var neyðarlending. Hún var ekki ánægjuleg.“

Síðar sama dag hélt New York Times því fram að sagan væri ósönn. Trump hringdi í kjölfarið í dagblaðið og sagði að hann „myndi örugglega kæra“ án þess að skýra það frekar.

Ruglaði saman mönnum

Nú hefur borgarstjórinn fyrrverandi, sem á að hafa verið í þyrlunni með Trump, stigið fram og sagt að hann hafi aldrei verið í sama þyrluflugi og Trump.

„Ég held að ég myndi ekki vilja fara í þyrlu með honum,“ sagði Brown.

Í ljós kom að Trump virtist hafa ruglað fyrrverandi borgarstjóranum saman við nafna hans, Jerry Brown, fyrrverandi ríkisstjóra Kaliforníu. Sá Brown og Trump fóru saman í þyrluflug árið 2018 eftir mikla skógarelda í ríkinu.

Gavin Newsom, núverandi ríkisstjóri Kaliforníu, sem sömuleiðis var í fluginu hefur hinsvegar sagt að sú ferð hafi ekki verið lífshættuleg.

„Þetta er kjaftæði,“ sagði Newsom í samtali við New York Times.

„Donald var bara að gera það sem hann gerir best

Ástæða þess að Trump sagði söguna af þessu meinta þyrluævintýri var spurning á blaðamannafundinum um samband Willie Browns við mótframbjóðanda Trumps Kamölu Harris.

„Ég þekki Willie Brown mjög vel,“ sagði Trump áður en hann talaði um flugið og fullyrti að borgarstjórinn fyrrverandi hafði sagt sér „hræðilega hluti“ um Harris.

Þessu hefur fyrrverandi borgarstjórinn sömuleiðis neitað.

„Þetta er svo langsótt að það er ótrúlegt,“ sagði hann við sjónvarpsstöðina KRON og bætti við: „Ég get ekki ímyndað mér að hugsa um Kamölu Harris á neikvæðan hátt.

Hún er gömul vinkona, falleg kona, hrikalega gáfuð og mjög farsæl þegar kemur að kosningum.“

„Donald var bara að gera það sem hann gerir best, búa til skáldskap,” sagði Brown.

BBC

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert