Þúsundir úkraínskra hermanna taka um þessar mundir þátt í meiri háttar innrás í Kúrskhéraðið í Rússlandi. Að sögn úkraínsks embættismanns er markmiðið með innrásinni að veikja stöðu rússneskra yfirvalda með því að sýna fram á veikleika þeirra.
Innrás Úkraínumanna hófst fyrir sex dögum en rússnesk hernaðaryfirvöld viðurkenndu hana opinberlega í fyrsta skipti í dag þegar þau sögðust hafa ráðist á úkraínska hermenn og búnað um 30 km frá landamærunum.
Í samtali við fréttastofu AFP sagði úkraínskur embættismaður að markmiðið með innrásinni væri að valda eins miklu tjóni og hægt er.
„Við erum í sókn. Markmiðið er að veikja varnir óvinarins, valda eins miklu tjóni og mögulegt er og koma á óstöðugleika í Rússlandi þar sem Rússar geta ekki varið eigin landamæri,“ sagði embættismaðurinn sem kom ekki fram undir nafni.
Innrásin virðist hafa komið yfirvöldum í Rússlandi í opna skjöldu en embættismaðurinn sagði yfirlýsingar Rússa um að eitt þúsund úkraínskir hermenn hefðu ráðist inn í landið fjarri lagi.
„Þeir eru miklu fleiri… þúsundir.“
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti tjáði sig um innrásina í fyrsta skipti í gærkvöldi en í kvöldávarpi sínu til úkraínsku þjóðarinnar talaði hann um að Úkraína væri að „færa stríðið inn á yfirráðasvæði árásarmannsins“.
Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar árið 2022 og hafa gert linnulausar árásir á landið síðan, hernumið svæði í austur- og suðurhluta landsins og gert eldflauga- og drónaárásir á úkraínskar borgir á hverjum degi.
Eftir að hafa náð aftur stórum landsvæðum fljótlega eftir að stríðið hófst hafa úkraínsk yfirvöld að mestu verið í varnarstöðu og átt í miklum erfiðleikum með mannafla og vopnabirgðir.
Innrás úkraínska hersins yfir rússnesku landamærin hefur því verið mesta og árangursríkasta sókn Úkraínumanna í stríðinu til þessa.
Rússneski herinn hefur neyðst til að virkja varaherafla og -búnað auk þess að flytja að minnsta kosti 76.000 almenna borgara frá heimilum sínu á svæðum við landamærin.