Yfirvöld fordæma árás Ísraels á skólabyggingu

Meira en 90 manns létust í árásinni.
Meira en 90 manns létust í árásinni. AFP

Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna segir of marga almenna borgara vera drepna á Gaza. Þetta kemur í kjölfar árásar Ísraels á skóla aðfaranótt laugardags sem hýsti palestínskt flóttafólk en nærri 100 eru sagðir hafa látið lífið í árásinni. Harris er ein af fjölmörgum sem hafa lýst yfir ónægju sinni og áfalli vegna árásar gærdagsins.  

Samkvæmt CNN var fólkið sem hélt sig til í skólanum við bænir þegar að árásirnar hófust. Ísrael haldi því jafnframt fram að um tuttugu Hamas-liðar hafi verið að starfa í skólanum. 

Ýmislegt hafi verið gert til þess að minnka skaða árásarinnar gagnvart almennum borgurum. Palestínsk yfirvöld halda því þó fram að almennum borgurum hafi ekki verið gefnar neinar viðvaranir áður en að árásin hófst.

Þetta er fimmta árás ísraelska hersins á skólabyggingu á viku. 

Ráðist var á skólabyggingu.
Ráðist var á skólabyggingu. AFP

Ísrael drepi almenna borgara viljandi

Stjórnmálafólk víða um heim ásamt alþjóðasamfélaginu hafa fordæmt árásina. Þar má nefna Sameinuðu þjóðirnar, Katar, Egyptaland, Frakkland, Tyrkland og embættismenn frá Evrópusambandinu og Bretlandi ásamt Kamölu Harris, forsetaframbjóðenda og varaforseta Bandaríkjanna. Harris ítrekaði í gær nauðsyn vopnahlés, og það strax. 

Yfirvöld í Egyptalandi sökuðu Ísrael til dæmis um að drepa almenna borgara viljandi og að árásin væri skýrt sönnunargagn þess að enginn pólitískur vilji sé til staðar hjá Ísrael til þess að binda enda á stríðið. 

Ísrael þurfi að hlýða alþjóðalögum

Í færslu á samfélagsmiðlinum X sagði David Lammy, utanríkisráðherra Bretlands að Ísrael þyrfti að hlýða alþjóðalögum. Honum ofbyði árásin.

Reuters greinir frá því að 93 Palestínumenn hafi látið lífið í árásinni, þar af 11 börn og sex konur. Þá séu einnig líkamsleifar á svæðinu sem erfitt sé að bera kennsl á. Um 350 fjölskyldur hafi haldið til á svæðinu. Þá segi Ísrael þessar tölur frá yfirvöldum Gaza ekki stemma en 19 vígamenn hafi verið drepnir í árásinni. Yfirvöld á Gaza segja engan slíkan hafa verið drepinn. 

Mikil eyðilegging er nú sögð á svæðinu og lík á víð og dreif. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert