Úkraínumenn segjast hafa náð þúsund ferkílómetrum af rússnesku yfirráðasvæði, í stærstu gagnárás úkraínska hersins frá því að innrás Rússa í Úkraínu hófst fyrir tveimur og hálfu ári síðan. BBC greinir frá.
Oleksandr Sirskí, yfirmaður herafla Úkraínu, segir að Úkraínuher haldi áfram sókn sinni í Kúrsk-héraði, en árásin hófst fyrir viku síðan.
Sífellt fleiri hafa þurft að yfirgefa vesturhluta Rússlands í öryggisskyni, en 59.000 til viðbótar hefur verið sagt að yfirgefa svæðið.
Alexei Smírnov, héraðsstjóri í Kúrsk-héraði, sagði á fundi með Pútín forseta að 28 þorp á svæðinu hefðu fallið í hendur úkraínskra hersveita, 12 almennir borgarar hefðu fallið og að „ástandið væri enn erfitt“.
Í heildina hafi 121.000 manns verið gert að yfirgefa heimili sín í héraðinu.
Smírnov sagði Pútín að um 2.000 rússneskir ríkisborgarar væru enn á svæðum sem úkraínskar hersveitir hefðu hernumið. „Við vitum ekkert um afdrif þeirra,“ sagði hann.
Vjatsjeslav Gladkov, héraðsstjóri Belgorod, hefur sagt að 11.000 manns hafi þurft að yfirgefa heimili sín í héraðinu.
Úkraínskar hersveitir hófu óvænta árás á þriðjudaginn síðastliðinn og náðu allt að 30 kílómetra inn í Rússland.
Nokkur gagnrýni hefur komið fram um þá staðhæfingu Sirskí að hersveitir hans réðu nú yfir allt að þúsund ferkílómetrum af rússnesku landsvæði.
Hefur gagnrýnin meðal annars komið frá bandarísku hugveituni Institute for the Study of War, sem telur það ekki rétt að allt þetta landsvæði sé nú undir stjórn Úkraínu.
Talið er að árásin muni auka á baráttuanda Úkraínumanna en að sérfræðingar sem BBC ræddi við telja að með henni fylgi ný ógn fyrir Úkraínu.
Háttsettur yfirmaður í breska hernum sagði að hætta væri á að yfirvöld í Kreml myndu reiðast svo vegna árásinnar að Rússar gætu hert árásir sínar til muna á úkraínska borgara og innviði.
Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, segir að Rússar hefðu fært öðrum stríð og nú væri það að koma aftur til Rússlands.
Vladimir Pútín, forseti Rússlands, lýsti árásinni sem „meiri háttar ögrun“ og skipaði rússneskum hersveitum að „sparka óvininum út af yfirráðasvæðum okkar“.