Kvenfyrirlitning verði skoðuð sem öfgar

Yvette Cooper, innanríkisráðherra Bretlands.
Yvette Cooper, innanríkisráðherra Bretlands. AFP

Öfgafull kvenfyrirlitning verður álitin sem öfgahyggja undir nýrri ríkisstjórn í Bretlandi.

Yvette Cooper, nýr innanríkisráðherra Bretlands, hefur hrint af stað endurskoðun á stefnu landsins hvað varðar baráttu gegn öfgahyggju og skaðlegri hugmyndafræði.

Telja stjórnvöld öfgafullt kvenhatur hafa rutt sér til rúms að undanförnu og verður sú hyggja því tekin fyrir í nýrri umsögn um stefnuna. BBC greinir frá.

Skírlífi gegn eigin vilja

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ríkisstjórnin hefur litið á kvenfyrirlitningu sem form af öfgum, en nú hafa áhyggjur verið uppi um nokkurt skeið af stefnum á borð við Incel-menningu.

Fylgjendur hreyfingarinnar kalla sig incels, en nafnið er dregið af orðunum involuntary og celibate þ.e. skírlífir gegn eigin vilja.

Hreyfingin á rætur að rekja til netheima þar sem ungir karlmenn kenna konum og „alfa-karlmönnum“ um óheppni sína og árangursleysi í samskiptum við konur.

Ekki liggur fyrir hvenær umsögn ríkisstjórnarinnar verður opinberuð. Breska ríkisútvarpið tekur fram að sumir hafi gagnrýnt umsagnir stjórnvalda og sagt þær koma ráðamönnum undan því að ráðast í raunverulegar aðgerðir.

Hefur Verkamannaflokkurinn aftur á móti bent á að stefna Bretlands gegn öfgum í landinu hafi ekki verið endurskoðuð síðan 2015 en ýmsar nýjar öfgastefnur hafi haslað sér völl í landinu á þeim tíma.

Elur á sundrun og ógnar lýðræðinu

Cooper innanríkisráðherra sagði farið að bera á öfgum í auknum mæli bæði í netheimum og á götum úti og sagði hún slíkar stefnur ala á sundrun innan samfélagsins og ógna lýðræðinu.

Í endurskoðuninni verður uppgangur íslamista og öfgahægrisins í Bretlandi sömuleiðis til skoðunar, sem og fleiri og víðtækari hugmyndafræðilegir straumar sem gætu t.d. flokkast undir ofbeldi.

Verða orsakir þess að ungt fólk leiðist út í öfgahyggju sömuleiðis teknar til skoðunar sem og greining á núverandi stefnu og mögulegum endurbótum þar á sem gætu spornað betur við öfgafullri orðræðu, skaðlegum skoðunum og ofbeldi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert