Ráðast inn í Kúrsk til að skapa „hlutlaust svæði“

Selenskí hefur hingað til lítið sagt um fyrirætlanir Úkraínuhers á …
Selenskí hefur hingað til lítið sagt um fyrirætlanir Úkraínuhers á rússnesku landsvæði. Þetta er stærsta árás sem gerð hefur verið á Rússland síðan í seinni heimstyrjöldinni. AFP/Sergei Súpinskí

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti segir að innrás Úkraínuhers í Kúrsk-hérað í Rússlandi sé til þess að skapa „hlutlaust svæði“ til að verja Úkraínu frá frekari árásum Rússa.

Er þetta í fyrsta sinn sem Selenskí upplýsir um tilgang innrásarinnar en hún hefur komið alþjóðasamfélaginu á óvart, ekki síst Rússum.

Skyndiáhlaupið, sem var skipulagt í algjörri leynd að sögn New York Times, hefur opnað fyrir nýja möguleika fyrir Úkraínuher.

Breska dagblaðið Guardian greinir reyndar frá því að hann hafi áður gefið í skyn að innrásin væri til þess fallin að vernda svæði við landamæri Sumí-héraðsins í norðaustanverðri Úkraínu frá ítrekuðum loftárásum.

„Nú er okkar meginmarkmið í varnaraðgerðum að leggja í eyði eins mikið af herafli Rússa og mögulegt er og framkvæma hámarksgagnsókn. Í þessu felst að búa til hlutlaust svæði á landsvæði óvinarins,“ sagði Selenskí í ávarpi sínu sem hann birti á samfélagsmiðlum í kvöld.

Stærsta árás á Rússa frá seinni heimstyrjöldinni

Innrásin hófst 6. ágúst þegar Úkraínumenn réðust inn á láði ýmist fótgangandi, eða með herbifreiðum og skriðdrekum. Tugir þúsunda Rússa hafa þurft að flýja heimili sín, að sögn héraðsyfirvalda í Kúrsk.

Sem fyrr segir hafa stjórnvöld í Kænugarði hingað til lítið sagt um fyrirætlanir sínar á rússnesku landsvæði og í upphafi voru Úkraínumenn lengi að viðurkenna að þeir bæru ábyrgð á innrásinni.

Þetta er stærsta árásin á Rússland síðan í seinni heimstyrjöldinni. Úkraínumenn sögðust í síðustu viku hafa lagt undir sig þúsund ferkílómetra landsvæði. Sú fullyrðing hefur enn ekki verið sannreynd.

Fyrr í dag sögðu Úkraínumenn að þeir hefðu sprengt upp brú í Kúrsk og skrifaði Míkóla Ólesjúk, yfirmaður í úkraínska flughernum, að brúin væri Rússum mikilvæg til birgðaflutninga. Á dögunum sprengdu þeir aðra brú í héraðinu.

Úkraínskir hermenn á ferð í Sumí-héraðinu.
Úkraínskir hermenn á ferð í Sumí-héraðinu. AFP

Pútín vildi hlutlaust svæði í Úkraínu

Reyndar hefur Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagt að sókn Rússa inn í Karkív væri til þess fallin að skapa hlutlaust svæði.

Þetta sagði hann í maí þegar hann var í opinberri heimsókn í Kína. Fjöldi Úkraínumanna þurftu að flýja heimili sín vegna innrásar Rússa í Karkív-hérað.

Pútín sagði innrásina í Karkív vera viðbragð við loftárásum Úkraínumanna í Belgorod. „Ég hef sagt opinberlega að ef þetta heldur áfram verðum við nauðbeygð í að skapa öryggissvæði.“

Rekur á eftir bandamönnum sínum

Þegar hann minntist á „hlutlausa svæðið“ sagði Selenskí að Úkraínuher hefði náð góðum árangri sem hafi sárvantað. 

„Aftur á móti, þegar kemur að birgðum frá bandamönnum okkar, þurfa hlutir að fara að hraða sér,“ sagði Selenskí. „Það eru engin leyfi frá stríði.“

Hann óskaði eftir skýrum upplýsingum um hvenær fyrirhugaðra vopnasendinga mætti vænta til Úkraínu.

„Ég er sérstaklega að ávarpa Bandaríkin, Bretland og Frakkland.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka