Drónaárásir á báða bóga

Íbúi bæjarins Myrnograd í Donetsk-héraði fyrir utan húsnæði sem brann …
Íbúi bæjarins Myrnograd í Donetsk-héraði fyrir utan húsnæði sem brann til grunna eftir árás Rússa í dag. Genya SAVILOV / AFP

Úkraínskir borgarar þurftu að yfirgefa svæði nálægt víglínunni í austurhluta Donetsk-héraðs eftir að Rússar sölsuðu þar undir sig meira landsvæði. 

Undanfarna daga hefur rússneski herinn sótt nokkuð í sig veðrið í Donetsk-héraði, á sama tíma og Rússar reyna að stemma stigu við gagnárás Úkraínumanna í vesturhluta Kúrsk-héraðs.

Almennir borgarar í Myrnograd, sem staðsett er innan við tíu kílómetra frá víglínunni, segja að margir yfirgefi nú svæðið þar sem ástandið fer stöðugt versnandi. Íbúar smábæjarins hafa mátt horfa upp á hús sín brenna eftir nýlegar árásir Rússa.

Rússneski herinn reynir nú einnig að ná yfirráðum í borginni Pokrovsk, sem talin er hernaðarlega mikilvæg fyrir þá. Borgin stendur aðeins fimm kílómetra vestur af Myrnograd.

Á mánudag var barnafjölskyldum fyrirskipað af yfirvöldum að yfirgefa heimili sín í Pokrovsk og á nærliggjandi svæði. Sett hefur verið upp hjálparmiðstöð til bráðabirgða fyrir þær fjölskyldur sem ekki hafa í önnur hús að venda.

Þá hafa Rússar einnig náð bænum Zhelanne á sitt vald.

Vilja draga Rússa fyrir alþjóðlega sakamáladómstólinn

Donetsk-héraðið hefur verið miðpunktur stríðsins síðan 2014, eftir að aðskilnaðarsinnar reyndu að ná Donbas-héraði og slíta sig frá Kænugarði.

Í dag gekk Úkraína til liðs við alþjóðlega sakamáladómstólinn (ICC), en þeir freista þess að draga Rússa fyrir rétt vegna stríðsglæpa.

Stjórnvöld í Kænugarði eru sögð hafa vonast til að innrás þeirra á landamæri við Kúrsk myndi neyða Rússa til að beina herliði frá öðrum hlutum víglínunnar. Enn er fátt sem bendir til að bardagar á víglínunni í austurhluta Úkraínu hafi minnkað.

Bæði lönd hófu einnig tilraunir til drónaárása í nótt sem beindust að Kænugarði og Moskvu. Rússar segja þetta eina stærstu tilraun til að ráðast á Moskvu og að þeir hafi eyðilagt 45 dróna. Að sama skapi segist flugher Úkraínu hafa skotið niður 50 dróna og eina eldflaug á leið til Kænugarðs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka