Sprengjuhótanir í skólum vegna falskra ummæla

Donald Trump á blaðamannafundi í gær.
Donald Trump á blaðamannafundi í gær. AFP/Mario Tama

Don­ald Trump, for­setafram­bjóðandi Re­públi­kana­flokks­ins, seg­ist vilja flytja fjölda far­and­fólks á brott frá borg­inni Spring­field í banda­ríska rík­inu Ohio.

„Við ætl­um að byrja á Spring­field,“ sagði Trump í gær og bætti við að inn­flytj­end­ur hefðu eyðilagt borg­ina.

Yf­ir­menn í Spring­field segja að til­hæfu­laus­ar staðhæf­ing­ar hans um að inn­flytj­end­ur frá Haítí sem búa í bæn­um borði gælu­dýr hafi haft afar slæm áhrif á sam­fé­lagið og leitt til of­beld­is­fullra hót­ana sem hafa orðið til þess að loka hef­ur þurft skól­um.

Sjálfboðaliðinn Hope Kaufman kennir nemendum frá Haítí ensku í Springfield. …
Sjálf­boðaliðinn Hope Kaufm­an kenn­ir nem­end­um frá Haítí ensku í Spring­field. Rýma hef­ur þurft skóla í borg­inni að und­an­förnu. AFP/​Roberto Schmidt

Joe Biden Banda­ríkja­for­seti hvatti til still­ing­ar í gær og sagði gagn­rýni í garð fólks frá Haítí vera „ein­fald­lega ranga“.

„Þessu verður að linna, það sem hann er að gera. Því verður að linna,“ sagði hann um um­mæli Trumps, að þvi er BBC greindi frá.

Trump lét um­mæl­in falla eft­ir næst­um viku­lang­ar falsk­ar staðhæf­ing­ar sem höfðu verið uppi um að far­and­fólk í Spring­field drepi gælu­dýr.

„Þau eru að borða hund­ana, fólkið sem kem­ur þangað það borðar kett­ina,“ sagði hann um inn­flytj­end­urna frá Haítí í borg­inni, í kapp­ræðum við demó­krat­ann Kamölu Harris. 

Lögreglumaður og lögregluhundur á leið inn í bíl eftir að …
Lög­reglumaður og lög­reglu­hund­ur á leið inn í bíl eft­ir að ráðhús­inu barst sprengju­hót­un. AFP/​Roberto Schmidt

Lög­reglu­stjór­inn og borg­ar­stjór­inn í Spring­field ásamt rík­is­stjóra Ohio, Mike DeW­ine, hafa all­ir vísað þess­um um­mæl­um á bug og segja þau röng.

Í gær þurfti að rýma þrjá skóla í borg­inni vegna sprengju­hót­ana. Að minnsta kosti ein hót­un­in hafði að geyma niðrandi um­mæli um fólk frá Haítí, að sögn borg­ar­stjór­ans Bob Rue.

Áður hafði þurft að rýma ráðhús borg­ar­inn­ar og þó nokkr­ar aðrar bygg­ing­ar, þar á meðal einn skóla, vegna hót­ana.

Far­and­fólkið í Spring­field, sem er aðallega frá Haítí, má dvelja lög­lega í Banda­ríkj­un­um sam­kvæmt sér­stöku verk­efni á veg­um rík­is­ins fyr­ir íbúa Haítí.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert
Loka