Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, segir að Sameinuðu þjóðirnar hafi breyst í „fyrirlitlegan farsa“ og gagnrýnir harðlega þá óréttlætu meðferð sem Ísraelar sæti af hálfu stofnunarinnar.
„Ég segi ykkur að þangað til Ísrael – þangað til ríki gyðinga – er meðhöndlað eins og önnur ríki, þangað til þetta fen gyðingaandúðar þurrkast upp, mun fólk sem hefur sanngirnina að leiðarljósi allsstaðar líta á Sameinuðu þjóðirnar sem ekkert meira en fyrirlitlegan farsa,“ sagði forsætisráðherrann.
Á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sagðist Netanjahú ætla að halda áfram bardögum Ísraela við Hisbollah-samtökin í Líbanon. Fyrr í þessari viku lögðu Frakkar og Bandaríkjamenn til 21 dags vopnahlé á svæðinu. Ekki er útlit fyrir að verði af því.
Í ræðu sinni gagnrýndi hann ítrekað Sameinuðu þjóðirnar og sagði þær andsnúnar Ísrael. Einhverjir fulltrúar á þinginu gengu út úr salnum á meðan stuðningsmenn Netanjahús klöppuðu.
„Á sama tíma og Hisbollah velur að feta áfram stríðsbrautina hefur Ísrael engra kosta völ og Ísrael hefur fullan rétt til að fjarlægja þessa ógn og skila borgurum sínum til baka heimilum sínum á öruggan máta,“ bætti hann við.