Rússar verja milljörðum til að efla herinn

Rússneskir sérsveitarmenn sjást hér við æfingar í Beslan í Norður-Ossetíu.
Rússneskir sérsveitarmenn sjást hér við æfingar í Beslan í Norður-Ossetíu. AFP

Rússnesk stjórnvöld hafa ákveðið að verja auknu fé til varnarmála á næsta ári. Aukningin á milli ára er umtalsverð, eða nemur um 30%.

Þetta kemur fram í drögum að fjárlagafrumvarpi næsta árs, sem rússnesk stjórnvöld kynntu í dag. Alls mun ríkisstjórnin setja meiri fjármuni í herinn heldur en í velferðar- og menntamál samanlagt.

Rússar hafa þegar sett aukið fé til að styrkja herinn og hernaðaraðgerðir hans í Úkraínu. Upphæðirnar eru slíkar að annað eins hefur ekki sést frá tímum Sovétríkjanna. Fjármagn er m.a. sett í kaup og framleiðslu á flugskeytum og drónum sem ætlað er að beita gegn Úkraínu. Þá fara jafnframt háar fjárhæðir í að greiða rússneskum hermönnum laun sem berjast í fremstu víglínu.

Á næsta ári munu Rússar því verja sem nemur 13,5 billjónum rúblna til varnarmála á næsta ári, sem jafngildir um 20.000 milljörðum kr. Það er aukning um þrjár billjónir rúblna miðað við árið í ár.

Upphæðin fyrir næsta ár tekur þó ekki tillit til annarra aðgerða sem rússnesk stjórnvöld grípa til í sambandi við hernaðaraðgerðir sínar í Úkraínu, m.a. það sem Rússar kalla „öryggismál innanlands“ og annað sem Rússar skrá sem hernaðarleyndarmál.

Reiknað er með að heildarútgjöld rússneska ríkisins til varnar- og öryggismála munu nema um 40% af heildarútgjöldum ríkissjóðs og verði um 41,5 billjónir rúblna árið 2025.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert