Leiðtogi Hamas-hryðjuverkasamtakanna í Líbanon, sem felldur var á dögunum í loftárás, var starfsmaður Palestínuflóttamannahjálparinnar (UNRWA). Var hann skólastjóri í skóla á vegum Sameinuðu þjóðanna.
Fatah Sharif Abu al-Amine var leiðtogi Hamas í Líbanon en var drepinn í víðtækari loftárás gegn leiðtogum Hisbollah og Hamas á mánudag.
UNRWA segir nú að hann hafi verið skólastjóri í skóla á vegum stofnunarinnar en hann hafði verið í leyfi frá störfum síðan í mars vegna grunaðra tengsla við Hamas, eftir að Ísraelsmenn sökuðu hann og fjölda annarra starfsmanna UNRWA um að vera með tengsl við Hamas.
Wall Street Journal greinir frá.
Sharif bar ábyrgð á stjórnmála- og hryðjuverkastarfsemi Hamas-samtakanna í Líbanon og samhæfði árásir gegn Ísrael með líbönsku hryðjuverkasamtökunum Hisbollah, að því er Ísraelsher sagði í gær.
Ísraelar hafa lengi kvartað yfir því að UNRWA, sem sér um menntun, heilbrigðisþjónustu og aðra aðstoð við palestínska flóttamenn, sé hlutdrægt gagnvart Ísrael og að hluti starfsmanna þess séu meðlimir í Hamas og öðrum hryðjuverkasamtökum.
Í febrúar fyrr á þessu ári sögðust Ísraelar hafa sannanir fyrir því að starfsmenn UNRWA hefðu tekið þátt í árás Hamas og fundust þá einnig göng Hamas-samtakanna undir skólum UNRWA á Gasa.
Í kjölfarið frystu mörg ríki tímabundið fjárstuðning sinn til stofnunarinnar, þar á meðal íslensk stjórnvöld.
Sameinuðu þjóðirnar tilkynntu í ágúst að níu starfsmenn UNRWA hefðu að öllum líkindum átt aðild að stórfelldri hryðjuverkaárás Hamas á Ísrael, þann 7. október 2023, þar sem hátt í 1.200 voru myrtir, og á þriðja hundrað gíslar teknir. Voru þeir allir reknir.
Mörg ríki hófu þó fjárstuðning sinn við UNRWA á ný eftir að rannsókn á ásökunum Ísraela hófst, en í júní á þessu ári tilkynnti Ásmundur Einar Daðason, barna- og menntamálaráðherra, um að íslensk stjórnvöld myndu hækka fjárframlög til stofnunarinnar um 100 milljónir á þessu ári.
Samanlögð framlög Íslands til stofnunarinnar munu því nema um 290 milljónum króna í ár.