Nú þegar aðeins 32 dagar eru í forsetakosningarnar vestanhafs þá hefur Donald Trump, forsetaframbjóðandi repúblikana, tekið forystuna í kjörmannakerfinu. Nýafstaðnar varaforsetakappræður þóttu á jákvæðu nótunum.
Þetta kemur fram í yfirferð Hermanns Nökkva Gunnarssonar, blaðamanns á mbl.is og Morgunblaðinu, í Spursmálum í dag.
Kamala Harris, forsetaframbjóðandi demókrata, leiðir á landsvísu með 2,2 prósentustiga forskoti samkvæmt RealClearPolitics, sem tekur saman meðaltal kannanna. Þegar ríkin eru skoðuð þá er Trump hins vegar nú að mælast með forystuna í kjörmannakerfinu.
Síðustu rúmlega tvær viku hefur Harris leitt í kjörmannakerfinu og hefur það verið vegna þess að hún hefur leitt í Pennsylvaníu, Michigan, Wisconsin og Nevada. Það myndi skila henni 276 kjörmönnum, en frambjóðandi þarf 270 kjörmenn til þess að vinna kosningarnar.
Harris mælist hins vegar ekki lengur með forskot í Pennsylvaníu. Tæknilega séð mælist enginn með forskot í Pennsylvaníu, heldur mælast frambjóðendurnir með 48,2% fylgi hvor.
Þegar báðir frambjóðendur mælast með jafn mikið fylgi – upp á kommu – þá miðar RealClearPolitics við síðustu könnun þar sem einhver frambjóðandi leiddi og í könnun sem kom út fyrir fimm dögum var Trump með þriggja prósentustiga forskot á Harris í ríkinu.
Þar af leiðandi er Pennsylvanía rautt á litinn í kjörmannakortinu.
Trump myndi samkvæmt könnunum núna vinna Arizona, Georgíu, Norður-Karólínu og Pennsylvaníu sem myndi tryggja honum 281 kjörmann.
Áfram er hnífjafnt í sveifluríkjunum sjö en mesti fylgismunurinn er í Arizona þar sem Trump mælist með 1,7 prósentustiga forskot á Harris.
J.D. Vance, varaforsetaefni Donalds Trumps, og Tim Walz, varaforsetaefni Kamölu Harris, tókust á í kappræðum á þriðjudag sem þóttu vera á jákvæðu nótunum. Hermann fór yfir meðaltal fjögurra kannanna sem ABC tók saman um hvor frambjóðandinn stóð sig betur.
Að meðaltali sögðu 48% svarenda að Vance hafi staðið sig betur en 46% sögðu að Walz hafi staðið sig betur. Í meðaltalinu voru meðal annars kannanir frá CNN og CBS og í báðum úrtökum voru fleiri demókratar en repúblikanar.
Má því áætla, í ljósi þess að fleiri sögðu Vance hafa staðið sig betur, að Vance hafi tekist betur að höfða til óflokksbundinna kjósenda.
Engu að síður er fátt sem bendir til þess að varaforsetakappræður hafi mikil áhrif á niðurstöðu kosninga.
Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri, sat fyrir svörum í nýjasta þætti Spursmála.
Hér má horfa á þáttinn í heild sinni: