Ísraelar minnast þess í dag að eitt ár er liðið síðan vígamenn Hamas-samtakanna gerðu mannskæða árás á landið 7. október í fyrra.
„Heimurinn verður að átta sig á því og skilja að til þess að breyta gangi sögunnar og koma á friði, betri framtíð fyrir svæðið, verður hann að styðja Ísrael í baráttunni gegn óvinum þess,“ sagði Isaac Herzog, forseti Ísraels, í tilkynningu.
Minningarathafnir og fleiri viðburðir eru fyrirhugaðir víðs vegar um Ísrael og í borgum víða um heim til að minnast þeirra rúmlega 1.200 manns sem féllu í árásinni.
Herzog hóf daginn með einnar mínútu þögn, klukkan 6.29 fyrir hádegi að staðartíma, sem er sami tími og þegar árásin hófst, á Kibbutz Reim þar sem Nova-tónlistarhátíðin var haldin. Þar voru 370 manns drepnir af þungvopnuðum liðsmönnum Hamas.
Fjölskyldur þeirra sem voru drepnir mættu á minningarathöfnina og voru margar þeirra grátandi þegar Herzog mætti á staðinn, að sögn fréttamanns AFP á staðnum.
Að minnsta kosti fjórum flugskeytum var skotið frá Gasasvæðinu í átt að Ísrael nokkrum mínútum eftir að Ísraelar byrjuðu að minnast fórnarlambanna, að sögn Ísraelshers.
Herinn skaut niður fjögur þeirra og eitt lenti á opnu svæði, sagði herinn í tilkynningu.
Hamas-samtökin sögðust í tilkynningu hafa skotið flugskeytum á suðurhluta Ísraels á „samkomur óvinarins“ við Rafah-landamærin, Kerem Shalom-landamærin og kibbutz Holit, skammt frá landamærunum hjá Gasa.
Ísraelsher sagði jafnframt að einn ísraelskur hermaður hefði verið drepinn við landamæri Ísraels og Líbanons. Loftárásir Ísraela á Líbanon héldu áfram í morgun. Loftvarnarflautur ómuðu í höfuðborginni Beirút.
Ísraelsk samtök tilkynntu í morgun að einn gísl væri látinn sem hefði verið í haldi Hamas-liða á Gasasvæðinu. Þau sögðu að Idan Shtivi, 28 ára, hefði verið numinn á brott á Nova-tónlistarhátíðinni og að „lík hans er enn í haldi Hamas“.
Fram kom að Shtivi hefði verið nýkominn á hátíðina þegar árásin hófst.