Norska öryggislögreglan PST lét þau boð út ganga í dag að stig metinnar hryðjuverkaógnar gagnvart Noregi færðist frá „Meðalháu“ yfir í „Hátt“ sem er næstefsta þrepið á þeim skala – fjórða stigið af fimm.
Vopnaðir lögreglumenn voru til staðar og vel sýnilegir við bænahús gyðinga í Ósló í gær er þess var minnst þar að eitt ár var liðið frá innrás Hamas-hryðjuverkasamtakanna palestínsku í nágrannaríkið Ísrael, en skálmöld hefur ríkt milli nágrannaríkjanna það ár sem liðið er frá hrottafengnum blóðsúthellingum innrásarhers Hamas sem engu eirði.
„Í Noregi erum við fyrst og fremst að horfa á þá ógn sem gyðingleg og ísraelsk skotmörk standa frammi fyrir,“ segir Eirik Veum yfirráðgjafi PST við norska ríkisútvarpið NRK og bendir á síharðnandi átök í Mið-Austurlöndum sem höfuðforsendu matsins.
Enn fremur lætur hann það uppi að öryggislögreglan vilji ekki tjá sig um hvað mat hennar feli nákvæmlega í sér en vísar til blaðamannafundar í kvöld.
„PST hefur enn sem komið er engar beinharðar upplýsingar um að til standi að gera atlögu að skotmörkum í Noregi en við vinnum stöðugt með nýjar matsgerðir hvað ógnina og óvissuþáttinn snertir,“ heldur Veum áfram við NRK.
Norski ríkislögreglustjórinn Benedicte Bjørnland segir ástæðuna fyrir því að norsk lögregla verði nú með vopnum þá að hættustigið sé aukið og þar með telji löggæsluyfirvöld æskilegt að lögregla hafi burði til að bregðast hraðar við hugsanlegri hryðjuverkaárás svo kæfa megi slíka árás í fæðingu eða í versta falli takmarka megi eftir megni þann skaða sem slík árás kunni að hafa í för með sér.
Enn fremur nefnir ríkislögreglustjóri aukna árvekni lögreglu, eftirlit og sýnileika á norsku almannafæri, einkum þar sem talið sé að ákjósanleg skotmörk misindismanna séu á fleti fyrir, eftirlit með þeim sem telja mætti að brugguðu launráð auk hertrar öryggisgæslu við samkomur og viðburði almennings.
Bjørnland kveður ríkislögreglustjóraembættið eiga í þéttu samráði við öryggislögregluna um gang mála í miðaustrinu og tengsl þeirra við ógnarstigið í Noregi.
„Aðstæður geta breyst skjótt og lögreglan viðhefur sífellt mat á stöðunni og lagar sig að þeim breytingum sem þar verða. Nú á næstunni einbeitum við okkur að þeirri staðreynd að ríkisstjórnir geta beitt glæpahringjum til að fremja hryðjuverk og því hvaða afleiðingar slíkt hefði fyrir framgöngu löggæsluyfirvalda gagnvart þeim afbrotahópum,“ segir Bjørnland.
„Þetta er áhyggjuefni. Það er jákvætt að lögreglan og PST séu á varðbergi,“ segir Joav Melchior, rabbíni Mósaíska trúarsamfélagsins, Det Mosaiske Trossamfunn, í Ósló. „Við hefðum kosið að samfélagið brygðist allt öðruvísi við því sem hefur gerst í og utan Noregs síðan 7. október [í fyrra]. Þar er víða pottur brotinn. Við höfum sagt það á skýrustu nótum að það er orðið býsna snúið að vera gyðingur í Noregi núna síðasta árið,“ segir rabbíninn áhyggjufullur.
Á meðal þeirra sem tóku til máls í gær, þegar þess var minnst að eitt ár var liðið frá innrásinni í Ísrael, var norski forsætisráðherrann Jonas Gahr Støre.
„Það sem gerðist í Ísrael 7. október 2023 endurvakti martraðir gyðinga frá löngu liðnum tímum og hefur valdið okkur öllum ótta og óbeit,“ sagði ráðherra, „gyðingar í Noregi eiga ekki að þurfa að upplifa sig sem einangraða. Við stöndum saman. Þitt öryggi er mitt öryggi. Því að vera gyðingur í Noregi á að fylgja öryggi, þú átt ekki að vera einstæðingur,“ sagði Støre enn fremur í ávarpi sínu í gær.
Haraldur Noregskonungur og Hákon krónprins voru einnig til staðar þegar innrásarinnar í Ísrael var minnst í gær og voru eftirfarandi orð Noregskonungs höfð eftir honum í fréttatilkynningu:
„Við þörfnumst samstöðu svo einstaklingar og hópar í norsku samfélagi fái að upplifa öryggi. Enginn skal sæta hatri, ofsóknum og hótunum vegna átaka sem eiga sér stað annars staðar í heiminum.“