Óttast að Ísraelar fari eins með Líbanon og Gasa

Mikill reykur stígur upp frá jörðu eftir loftárás Ísraela á …
Mikill reykur stígur upp frá jörðu eftir loftárás Ísraela á líbanska þorpið Khiam í suðurhluta landsins. AFP

Mannréttindafulltrúar Sameinuðu þjóðanna kalla eftir tafarlausum aðgerðum til að stöðva stigmagnandi styrjöld í Líbanon áður en hún fer að líkjast þeirri eyðileggingu sem við blasir á Gasa.

„Við þurfum að gera allt sem við getum til að koma í veg fyrir að það gerist,“ sagði Matthew Hollingworth, landsstjóri Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) í Líbanon.

Ávarpaði hann blaðamannafund í Genf frá Beirút og tók fram að hann hefði varið fyrri hluta ársins í að samræma aðgerðir WFP á Gasa áður en hann tók við stjórn skrifstofunnar í Líbanon og hann hefði miklar áhyggjur af svipaðri þróun.

„Sú hugsun sækir stöðugt að mér, frá því ég vakna og þar til ég sofna, að við gætum leiðst inn í sams konar hringiðu tortímingar. Við ættum ekki að leyfa því að gerast,“ sagði hann.

Íbúar virða fyrir sér rústir byggingar sem jöfnuð var við …
Íbúar virða fyrir sér rústir byggingar sem jöfnuð var við jörðu í loftárás Ísraela í úthverfi Beirútborgar. AFP

Ísraelar aðallega drepið óbreytta borgara

Stríð Ísraels í Gasa, sem hófst eftir árás Hamas á Ísrael fyrir ári, hefur orðið meira en 41.900 manns að bana.

Með stríðsrekstrinum hafa Ísraelar aðallega drepið óbreytta borgara, að sögn heilbrigðisráðuneytisins sem er á yfirráðasvæði Hamas.

Sameinuðu þjóðirnar hafa sagt tölurnar áreiðanlegar.

Árásin 7. október kostaði 1.206 manns lífið, að mestu óbreytta borgara, samkvæmt tölum AFP sem byggðar eru á opinberum gögnum frá Ísrael, en þær innihalda einnig gísla sem hafa verið drepnir í haldi.

Frá loftárás Ísraela á líbanska þorpið Yaroun í síðustu viku.
Frá loftárás Ísraela á líbanska þorpið Yaroun í síðustu viku. AFP

Yfir milljón manns á flótta á tveimur vikum

Átökin sem fylgdu hafa breiðst út til Líbanons, með auknum loftárásum og baráttu á jörðu niðri á milli ísraelskra hermanna og Hisbollah-samtakanna.

Loftárásir Ísraels á Líbanon hafa drepið meira en 1.100 manns og hrakið yfir milljón manns á flótta á innan við tveimur vikum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert