„Ég held að þetta verði ekki svo jafnt“

Það eru aðeins þrír dagar þar til Bandaríkjamenn ganga að …
Það eru aðeins þrír dagar þar til Bandaríkjamenn ganga að kjörborðinu. AFP/Jeff Kowalsky og Mandel Ngan

Hinn þaul­reyndi kosn­ingaráðgjafi Mark Camp­bell er ekki svo sann­færður um að fylg­is­mun­ur­inn á milli Kamölu Harris, for­setafram­bjóðanda demó­krata, og Don­alds Trumps, for­setafram­bjóðanda re­públi­kana, sé jafn lít­ill og op­in­ber­ar kann­an­ir benda til.

„All­ar inn­herja­mæl­ing­arn­ar sem ég hef séð sýna hreyf­ingu á fylgi til Trumps,“ seg­ir hann í sam­tali við mbl.is.

Hann tel­ur aft­ur á móti að Trump hafi verið hroka­full­ur á síðustu dög­um sem opni á þann mögu­leika að hann missi sig­ur­inn úr hönd­um sér.

Mark Campbell.
Mark Camp­bell. Ljós­mynd/​Aðsend

Fólk að færa sig til Trumps

Camp­bell var kosn­inga­stjóri Glen Young­kins, rík­is­stjóra Virg­in­íu, ásamt því að hafa verið hátt­sett­ur [e. Political director] í for­setafram­boðum Ted Cruz og Rudy Giuli­ani. Hann hef­ur einnig starfað fyr­ir Bush-feðgana og þá þjálf­ar hann nú aðra íhalds­sama kosn­inga­stjóra vest­an­hafs.

Hann ræddi við mbl.is um for­seta­kosn­ing­arn­ar sem verða haldn­ar á þriðju­dag­inn.

„Ég held að þetta verði ekki svo jafnt en við sjá­um til. Þró­un­in í krosstöfl­un­um sýn­ir fólk færa sig til Trumps,“ seg­ir hann spurður um kann­an­ir sem benda til þess að það sé mjótt á mun­um.

Fólk bíði eft­ir svör­um frá Harris

Hann seg­ir að árið 2004 þegar hann starfaði í kosn­ingat­eymi Geor­ge Bush yngri hafi út­litið verið svart degi fyr­ir kjör­dag en þegar út­göngu­spár komu út á kjör­dag þá hafi orðið ljóst að Bush myndi hafa þetta.

Marg­ir kjós­end­ur sögðu að John Kerry, þáver­andi for­setafram­bjóðandi demó­krata, hefði ekki gefið þeim ástæðu til að kjósa hann held­ur aðeins sagt þeim af hverju þeir ættu að kjósa gegn Bush.

„Það sem við erum að sjá núna er að fólk er búið að bíða og bíða eft­ir því að Kamala Harris út­skýri hvernig for­setatíð henn­ar myndi líta út en hún er aðeins að ein­blína á allt það nei­kvæða við Trump. Og það er eng­inn í vest­ur- eða aust­ur­heim­in­um sem er ekki með á hreinu all­ar þær áskor­an­ir sem fylgja Trump. En þeir [kjós­end­ur] halda áfram að bíða eft­ir því að Harris segi „af hverju hún og af hverju núna.“ Hún er í raun ekki að svara þess­um spurn­ing­um. Hún er þó að verða betri á und­an­förn­um dög­um,“ seg­ir hann.

Hann bæt­ir því við að mæl­ing­ar sýni að fram­bjóðend­ur re­públi­kana til þings séu farn­ir að styrkja sig í könn­un­um að und­an­förnu sem renni stoðum und­ir það að meðvind­ur­inn sé al­mennt með re­públi­kön­um.

Hroki af hálfu Trumps

Haf­andi sagt það þá seg­ir hann bar­áttu Trumps ekki vera dans á rós­um held­ur.

„Það er ákveðinn svona hroki af hálfu Trump-teym­is­ins að halda að þeir geti gert eða sagt nán­ast hvað sem er án þess að það hafi af­leiðing­ar,“ seg­ir Camp­bell.

Hann nefn­ir sem dæmi brand­ara uppist­and­ar­ans Tony Hinchclif­fe, sem hann sagði á kosn­ingaviðburði Trumps á dög­un­um, þar sem hann sagði Pú­er­tó Ríkó vera ruslaeyju.

Trump hef­ur ekki for­dæmt um­mæl­in al­menni­lega að mati Camp­bells.

Donald Trump í Wisconsin í gær.
Don­ald Trump í Wiscons­in í gær. AFP

„Þá gæti það sveiflað rík­inu yfir til Harris“

„Það eru yfir 400 þúsund Banda­ríkja­menn í Penn­sylvan­íu ættaðir frá Pú­er­tó Ríkó,“ seg­ir hann og bæt­ir við:

„Þannig ef það er mjótt á mun­um í Penn­sylvan­íu og helm­ing­ur­inn af þessu fólki er reitt í garð Trumps, þá gæti það sveiflað rík­inu yfir til Harris. Und­ir venju­leg­um kring­um­stæðum þá ætti þessi bar­átta ekki að vera jöfn, Trump ætti að vinna lang­flest sveiflu­ríki og við ætt­um öll að geta farið í hátt­inn rétt eft­ir miðnætti [vit­andi úr­slit­in].

En hann held­ur áfram að gera þessi óþvinguðu mis­tök og leiðrétt­ir þau ekki, sem gæti mögu­lega gert þessa kosn­inga­bar­áttu jafn­ari en hún ætti að vera,“ seg­ir Camp­bell.

Mál­efni fóst­ur­eyðinga óvissuþátt­ur

Hann tel­ur að verðbólga á mat­vörumarkaði síðustu ár sem og staðan í út­lend­inga­mál­um séu ein­fald­lega of erfið mál fyr­ir Harris til þess að hún geti sigrað, en hann seg­ir þó einn óvissuþátt mögu­lega geta hjálpað Harris. Aðgengi að þung­un­ar­rofi. 

Hann út­skýr­ir að í þing­kosn­ing­un­um árið 2022 hafi re­públi­kan­ar talið að þeir myndu bæta við sig yfir 40 þing­sæt­um í full­trúa­deild­inni en þeir bættu aðeins við sig inn­an við 10 þing­sæt­um í kosn­ing­un­um.

„Þannig að það sem eng­inn veit í raun­inni er hvort að ógn­in um mögu­legt fóst­ur­eyðing­ar­bann verði nóg til að vinna gegn öll­um hinum mál­un­um sem skipta fólk máli. Ég per­sónu­lega held að fóst­ur­eyðinga­bylgj­an hafi náð hápunkti og sé á niður­leið, en þetta er vissu­lega brýn­asta mál­efnið fyr­ir suma,“ seg­ir hann.

Er þessi mála­flokk­ur henn­ar besta von til þess að sigra kosn­ing­arn­ar?

„Já, vegna þess að þetta er eina raun­veru­lega til­finn­inga­málið sem hún er með á sinni hlið.“

Kamala Harris í Georgíu í september.
Kamala Harris í Georgíu í sept­em­ber. AFP
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert