Hlutabréf hækka og bitcoin í methæðum

Donald Trump hélt ræðu á kosningavöku sinni á Palm Beach …
Donald Trump hélt ræðu á kosningavöku sinni á Palm Beach í Flórída og lýsti þar yfir sigri sínum. AFP/Jim Watson

Gengi hlutabréfa bæði í Evrópu og Bandaríkjunum hækkaði talsvert í morgun, stuttu áður en Donald Trump lýsti yfir sigri sínum í forsetakosningunum í Bandaríkjunum. Þá hefur bandaríski dalurinn einnig styrkst og rafmyntin bitcoin náði methæðum í viðskiptum í morgun.

Útlit er fyrir að Trump hafi haft betur gegn Kamilu Harris, forsetaframbjóðanda demókrata, en Fox-sjónvarpsstöðin var á sjöunda tímanum sú fyrsta til að lýsa yfir sigri Trumps. Þá hafa fleiri fjölmiðlar spáð honum sigri og virðist hann hafa unnið í Pennsylvaníu, í ríkinu sem skipti hvað mestu máli fyrir frambjóðendurna að vinna til að tryggja sér forsetaembættið. Enn á þó eftir að lýsa formlega yfir niðurstöðum kosninganna.

Gera ráð fyrir skattalækkunum, tollum og aukinni verðbólgu

Fréttir um líklegan sigur Trumps hafa ýtt undir væntingar á markaði um að hann muni ráðast í skattalækkanir, auka tolla í Bandaríkjunum og draga úr regluverki. Þetta muni skila sér í auknum hagvexti, en einnig hærri verðbólgu.

Allar helstu vísitölur í Evrópu hækkuðu við upphaf viðskipta í morgun og hefur FTSE 100 vísitalan í Lundúnum meðal annars farið upp um 1,37%, DAX-vísitalan í Þýskalandi upp um 1,27% og CAC 40-vísitalan í Frakkalandi um 1,92%.

Trump hét því fyrir kosningarnar að gera Bandaríkin að höfuðborg heimsins þegar kæmi að bitcoin og öðrum rafmyntum. Gengi bitcoin-rafmyntarinnar hefur fylgt gengi Trumps nokkuð vel í aðdraganda kosninganna og í morgun hækkaði það um 6.000 dali, eða upp í 75.371,69 dali á hvert bitcoin. Var fyrra metið 73.797,98 dalir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert