Borgarstjóri Lundúna sakar Trump um rasisma

Sadiq Khan borgarstjóri Lundúna.
Sadiq Khan borgarstjóri Lundúna. AFP

Borgarstjóri Lundúna Sadiq Khan segir ítrekaða gagnrýni Donalds Trumps, verðandi forseta Bandaríkjanna, í sinn garð byggja á skoðunum repúblikans á etnískum uppruna sínum og trú. 

Khan, sem er múslími, og Trump hafa eldað grátt silfur saman allt frá því að sá síðarnefndi varð forseti Bandaríkjanna árið 2017.

Eiga deilurnar rætur að rekja til þess er Kahn gagnrýndi umdeilt ferðabann sem Trump innleiddi skömmu eftir að hann tók við embætti forseta. Bannið setti verulegar takmarkanir á komur fólks frá tilteknum múslimalöndum til Bandaríkjanna.

Sagði Khan vera mjög heimskan

Trump sakaði í kjölfarið Khan um að taka hryðjuverkamál ekki nógu föstum tökum. Lýsti fyrrverandi forsetinn Khan sem algjörgum lúða og sagði hann vera mjög heimskan.

Borgarstjórinn endurgalt gagnrýnina með því að leyfa mótmælendum að setja á loft stóran loftbelg sem var í laginu eins og barní bleyju en leit út eins og Trump, á mótmælum í Lundúnum er Trump kom í opinbera heimsókn til Bretlands.

Myndi ekki gagnrýna hann ef húðliturinn væri annar

Í Hlaðvarpsviðtali, sem var tekið upp viku áður en Trump var kjörinn á ný sem forseti Bandaríkjanna, kvaðst Khan hafa tekið móðgunum fyrrverandi forsetans mjög persónulega. 

„Ef húðliturinn minn væri annar, ef ég væri ekki múslimi, myndi hann ekki gagnrýna mig svona,“ sagði Khan í viðtalinu. 

„Hann er að ráðast að minni persónu, ef við tölum bara hreint út, vegna uppruna míns og trúar,“ hélt borgarstjórinn áfram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka