Hamas-hreyfingin hefur verið með leynilegar vopnageymslur í nokkrum Evrópulöndum, þar á meðal í Danmörku.
Þetta kemur fram í ákæru sem alríkissaksóknari Þýskalands hefur birt á vefsíðu sinni, í máli gegn fjórum grunuðum Hamas-liðum í landinu.
Alríkissaksóknarinn telur að Hamas hafi fyrir lögnu síðan komið á fót neðanjarðarvopnageymslum í fjölda Evrópuríkja.
Í umfjöllun danska ríkisútvarpsins, DR, kemur fram að Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, líti málið mjög alvarlegum augum.
„Þetta undirstrikar þá alvarlegu stöðu sem við erum í. Hatrið sem Hamas ber til Ísraels, ber Hamas líka til okkar hinna. Það segir sig sjálft að þetta er býsna alvarlegt,“ sagði Frederiksen í fyrirspurnartíma á danska þinginu í dag.