Emmanuel Macron, forseti Frakklands, leitar að nýjum forsætisráðherra eftir að ríkisstjórn Michel Barnier var steypt af stóli í sögulegri atkvæðagreiðslu um vantraust á þingi.
Vantraustið var lagt á hendur Barnier eftir að hann nýtti sér grein 49.3 í stjórnarskrá Frakka til að þvinga fjárlög í gegnum þingið. Tillagan að atkvæðagreiðslunni var þá lögð fram af vinstri flokkunum í þinginu en naut einnig stuðnings hinnar stóru Þjóðfylkingar, róttæks hægri flokks undir forystu Marine Le Pen sem situr í stjórnarandstöðu.
Enn er óljóst hvenær nýr forsætisráðherra verður skipaður en forsetinn hefur verið hvattur til að gera það sem fyrst til að koma í veg fyrir frekari pólitíska ringulreið, einkum í ljósi þess að von er á heimsleiðtogum á enduropnun Notre Dame dómkirkjunnar í París, eftir brunann 2019.