J.D. Vance, varaforseti Bandaríkjanna, hvatti í dag Evrópuríki til að breyta um stefnu í málefnum innflytjenda. Vance flutti í dag ávarp á öryggisráðstefnu sem fer fram í þýsku borginni München.
Í gær var afganskur karlmaður handtekinn fyrir að hafa ekið bifreið á hóp fólks með þeim afleiðingum að 30 særðust. Ökumaðurinn er 24 ára gamall hælisleitandi.
„Hversu oft þurfum við að þola svona hræðileg áföll áður en við breytum um stefnu og færum okkar sameiginlega samfélag á aðra braut,“ sagði Vance í ræðu sinni.
Vance sagði að neyðarástand væri að skapast í álfunni sem væri Evrópu sjálfri að kenna.
„Ef þið hræðist eigin þegna þá er ekkert sem Bandaríkin geta gert fyrir ykkur,“ sagði varaforsetinn.
„Þið hljótið ekki lýðræðislegt umboð með því að þagga niður í andstæðingum eða fangelsa þá.“
Þá sagði Vance að ekkert mál væri meira áríðandi en að taka á flóttamannavandanum.
Hann sagði að straumur flóttafólks og hælisleitenda hefði aldrei verið meiri í nokkrum ríkjum. Þetta væri afleiðing meðvitaðra ákvarðana sem stjórnmálafólk vítt og breitt í Evrópu, og um allan heim, hefði tekið undanfarinn áratug.
Hann vék orðum sínum einnig að Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, þegar hann sagði: „Bærinn hefur eignast nýjan fógeta.“
Vance sagði að þrátt fyrir að Bandaríkin væru ósammála afstöðu Þjóðverja þá myndu Bandaríkin „berjast fyrir rétti ykkar til að setja hana fram.“
Hann bætti við að hann ætti von á því að leiðtogarnir myndu fara yfir fjárframlög til varnarmála. Bandaríkin væru á þeirri skoðun að Evrópuríki yrðu að leika stærra hlutverk í álfunni til framtíðar litið.
Vance bætti síðan við að það væri sífellt óskýrara hverju Evrópa væri í raun að verjast gegn.
„Ég trúi því einlæglega að það verði ekkert öryggi ef þið óttist raddir og skoðanir sem stjórna ykkar eigin fólki.“
Vance gaf einnig í skyn að grundvallargildi í Evrópu séu á undanhaldi. Hann sagði að það væri óljóst hvað hefði komið fyrir þá sem stóðu uppi sem sigurvegarar eftir kalda stríðið. Hann nefndi ýmis dæmi eins og t.d. Brussel, þar sem framkvæmdastjórn ESB er með höfuðstöðvar, sem hefði lokað fyrir samfélagsmiðla þegar óeirðir brutust þar út.
„Ég óttast að víða í Bretlandi og í Evrópu sé tjáningarfrelsið á undanhaldi,“ sagði hann.
'In Britain and across Europe free speech, I fear, is in retreat'
— Sky News (@SkyNews) February 14, 2025
US Vice President JD Vance spoke at the Munich security conference and took a swipe at Brussels, Germany, Sweden and the UK.https://t.co/Ci0hPtWFvG
📺 Sky 501, Virgin 602, Freeview 233 and YouTube pic.twitter.com/X1aVj7aSSX