Samkeppni erfið svínabændum

Ingvi Stefánsson

Ingvi Stefánsson, svínabóndi á Teigi í Eyjafjaðarsveit og formaður Svínaræktarfélags Íslands, kveðst ekki sjá hvernig svínabændur ættu að geta tekist á við samkeppni við innflutt svínakjöt frá ESB-ríkjum, kæmi til aðildar Íslands að sambandinu.

Í dag eru um 21 svínabú í landinu. Talið er að um 90 ársverk séu í svínarækt en Ingvi telur að gera megi ráð fyrir að um 4-500 störf í kjötvinnslu séu vegna svínaslátrunar.

Hann segir að þótt sumir á Íslandi líti á svínarækt sem e.k. verksmiðjubúskap, séu íslensk svínabú agnarsmá á evrópskan mælikvarða. Vinnsluskostnaður sé að sama skapi mun hærri. „Ég hef tekið sem dæmi að stærsta svínasláturhús í Danmörku gæti annað innanlandsframleiðslunni hér á landi á innan við viku", segir hann. Samt hafi Danir, sem reki hátæknivædd sláturhús, áhyggjur af því að sláturkostnaður sé of hár miðað við það sem gerist og gengur austar í álfunni.

Ingvi telur að innanlandsframleiðsla á unnum kjötvörum úr svínakjöti, skinku, hakki, pylsum o.þ.h. myndi að miklu leyti leggjast af við aðild Íslands að ESB. Eitthvað lítilsháttar yrði framleitt af kjöti til að selja óunnið.

Fákeppni á smásölumarkaði

Bent hefur verið á að matvælaverð myndi lækka við aðild að sambandinu enda yrðu tollar afnumdir. Þess vegna yrði samkeppnisstaða svínabænda svo erfið.

„En það sem maður óttast að þar sem það er mikil fákeppni á smásölumarkaði að þá skili þetta sér seint og illa til neytandans," segir Ingvi.

Að hans mati væri það skárra að búa við samning WTO, takist hann, heldur en við aðild að ESB. Ingvi segir að í tilfelli WTO sé verið að tala um að lækka tollana, ekki fella þá alveg niður. Þar að auki væri lengi búið að ræða um að samið yrði á þessum vettvangi á allra næstu mánuðum en enn sé mikil óvissa á þessu sviði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Loka