„Mér finnst að við höfum ekki almennilega gefið íslensku krónunni tækifæri,“ segir Árni Vilhjálmsson, prófessor og stjórnarformaður HB Granda. „Nú er búið að skera bankakerfið niður við trog, það var orðið óeðlilega stórt í samanburði við landsframleiðslu og verður aðeins brot af því sem áður var. Víst gat krónan illa staðið undir mikilli þenslu bankakerfisins en nú gildir ekki lengur sú röksemd að bankakerfið sé óhæfilega stórt fyrir íslensku krónuna.“
Hann heldur áfram:
„Svo er á það að líta að undanfarin ár finnst mér að landinu hafi verið illa stjórnað, hið opinbera hefur staðið fyrir gríðarlegri þenslu hér á landi og ekki stutt Seðlabankann í viðleitni hans til að halda verðbólgu niðri – síður en svo. Og í þeirri trú að við getum staðið betur að opinberum fjármálum hér og stjórnað bankakerfinu betur en verið hefur held ég að krónan okkar eigi einhverja von. Ég held að við hljótum að reiða okkur á krónuna á næstu mánuðum því það tekur tíma að hrinda því í framkvæmd að taka upp annan gjaldmiðil.“
Árni hallast frekar að því að Íslendingar eigi að líta til annars gjaldmiðils en evrunnar. „Þá reikna ég með því að við göngum ekki í Evrópusambandið. Ef þú spyrð mig um mína skoðun vil ég ekki að við förum í ESB, nema það sé tryggt að við höldum forræði yfir fiskimiðum okkar. Ef það tekst ekki eigum við ekki að ganga í ESB. En ef það er hægt horfir málið kannski öðruvísi við. Yfirleitt er ég á móti því að við verðum þátttakendur í ESB. Við eigum að þrauka lengur, halda samskonar fullveldi og við höfum haft – og þá sýnist mér evran ekki koma til greina.“
– Hvaða gjaldmiðill þá?
„Við getum nefnt dollar sem dæmi um góðan gjaldmiðil.“