Leitin að framtíð

mbl.is/Guðmundur Rúnar

Eftir veikingu krónunnar fyrir og eftir bankahrunið hefur færst vaxandi þungi í umræðu um inngöngu í ESB og upptöku evru. Er það rökstutt með því að stjórnvöld þurfi að hafa langtímastefnu, sem veki tiltrú jafnt innlendra sem erlendra fjárfesta. Ekki síst eftir setningu neyðarlaganna, þar sem margir fjárfestar telja á sér brotið, og upptöku gjaldeyrishafta.

Í skýrslu Evrópunefndar (2007) segir: „Raunhæfir kostir Íslands í peningamálum eru að flestra mati einungis tveir, annars vegar núverandi fyrirkomulag og hins vegar upptaka evru samhliða aðild að ESB og EMU [myntbandalagi Evrópu]. Ísland gæti reyndar fræðilega tekið upp evruna einhliða eða með sérstöku samkomulagi við ESB, en báðir þeir kostir verða í reynd að teljast óraunhæfir.“

Grunnþáttur fullveldis

Ef ákveðið verður að sækja um aðild að ESB í vor gera „bjartsýnustu“ menn sér vonir um að Ísland geti orðið aðildarríki haustið 2011 eða í ársbyrjun 2012, en það gæti þó hæglega dregist lengur. „Ómögulegt er að tímasetja það nákvæmlega hvenær Íslendingar geta tekið upp evru með aðild að ESB,“ segir Olli Rehn, framkvæmdastjóri stækkunarmála ESB. „Það fer eftir því hvernig Íslandi gengur að uppfylla Maastricht-skilyrðin og veltur því ekki aðeins á ESB heldur einnig á íslenskum stjórnvöldum.“

Um leið og Ísland gengi í ESB fengi það stöðu „aðildarríkis með undanþágu“, þar sem það tekur ekki upp evru við aðild. Eftir að Maastrichtsáttmálinn var samþykktur árið 1992 hvílir þó á öllum nýjum aðildarríkjum sú „kvöð“ að stefna að upptöku evru. Verðstöðugleiki verður grundvallarmarkmið peningastefnunnar og stefnan í efnahags- og gengismálum samræmd markmiðum ESB.

Næsta skref í átt að evru felst í samningi um þátttöku í gengissamstarfinu ERM II og er umsókn um þátttöku í því valkvæð. Það er að minnsta kosti tveggja ára ferli.

Álit Seðlabanka Evrópu vegur þyngst í þeim samningaviðræðum, þar sem tekin er ákvörðun um miðgengi og vikmörk gjaldmiðils, en umsóknarríkið og evruríkin koma einnig að ákvörðuninni. Auðvitað er mikilvægt að ekki sé hallað á útflutningsgreinar með of sterku gengi, en ef ríki er mjög skuldsett, eins og í tilfelli Íslands, er mikilvægt að halda góðu jafnvægi þar á milli. Í tilfelli Finnlands, sem var í mikilli efnahagskreppu, var tekið mið af gengi áranna á undan.

Uppfyllum ekki skilyrðin

Haldist gjaldmiðill aðildarríkis ERM II innan vikmarka í tvö ár er litið svo á að það geti tekið upp evru, að uppfylltum Maastrichtskilyrðum.

Eystrasaltsríkin og Danmörk eru nú þátttakendur í ERM II. Eystrasaltsríkin hafa stefnt að upptöku evru í nokkur ár, en Danir hafa kosið að halda dönsku krónunni og láta sér nægja gengissamstarfið, enda var upptaka evru felld í þjóðaratkvæðagreiðslu þar í landi árið 2000. Eru Danir og Bretar einu þjóðirnar með undanþágu frá Maastrichtsáttmálanum. Búlgaría, Pólland, Rúmenía og Ungverjaland bíða hins vegar eftir því að skilyrði skapist í efnahagslífinu heima fyrir til þess að þau geti uppfyllt Maastrichtskilyrðin og hafið það ferli sem fylgir evruupptöku, með þátttöku í ERM II.

Ljóst er að Ísland myndi ekki uppfylla neitt af skilyrðunum til að komast inn í myntbandalagið (EMU) og ætti raunar langt í land með að ná þeim. Í skilyrðunum felst að halli á ríkissjóði megi ekki vera meira en 3% af vergri landsframleiðslu, verðbólga má aðeins vera 1,5% yfir meðaltali lægstu þriggja evrulanda, langtímavextir ekki meira en 2% hærri en í þeim ríkjum sem hafa minnsta verðbólgu og heildarskuldir ríkissjóðs ekki vera meiri en 60% af þjóðarframleiðslu.

Síðastnefnda skilyrðið er þó vægast, því þrátt fyrir að kveðið sé á um að skuldir megi ekki vera meiri en 60% af landsframleiðslu, þá mega skuldirnar vera meiri ef þær nást niður á viðunandi hraða. „Skuldirnar eru það auðveldasta, ef mér leyfist að orða það svo,“ segir einn viðmælenda í Brussel og tístir í honum. Til marks um það má nefna að skuldir hins opinbera voru um og yfir 100% í Belgíu og Grikklandi þegar þau tóku upp evru.

„Harkan“ ekki ástæðulaus

„Harkan“ er ekki ástæðulaus. Jürgen Stark rökstuddi hana á fundi Viðskiptaráðs með því að þegar ríki gengju í myntbandalagið, þá töpuðu þau möguleikanum til að nota stýrivexti til að hafa áhrif á efnahagslífið og laga samkeppnisstöðu þess. Og þar sem ákvarðanir í myntbandalaginu væru teknar út frá hagsmunum svæðisins í heild, en ekki staðbundnum hagsmunum, þá þyrfti að tryggja að efnahagur hvers ríkis væri nógu traustur fyrir myntbandalagið. Þannig mætti forða því að hætta skapaðist „á upplausn í aðildarríkinu sjálfu eða á evrusvæðinu í heild“.

Verðbólgan fyrirstaða

Ef dæmi er tekið af Lettlandi er vandinn að nokkru leyti heimatilbúinn og dæmigerður fyrir það sem gerst hefur í sumum ríkjum við inngöngu í ESB. Frá því Lettland varð aðildarríki árið 2004 hafa efnahagsskilyrðin batnað verulega með lægri vöxtum og meiri verðstöðugleika og valdið uppsveiflu í þjóðfélaginu. Hún ýtti undir launahækkanir og neyslu, sem aftur kallaði fram verðbólgu. Við þessu ástandi varaði framkvæmdastjórn ESB, það yrði að ná niður þenslu ef ekki ætti að koma til harðrar lendingar, en allt kom fyrir ekki.

Á endanum fór svo að ESB kom Lettlandi til aðstoðar með láni, en því fylgja ströng skilyrði. ESB kom öðru aðildarríki, Ungverjalandi, einnig til aðstoðar, sem ekki er með evru. Aðhald hafði skort í ríkisfjármálum, fjárlagahalli verið mikill undanfarin ár og skuldsetning vaxið, almenningur hafði tekið lán í evrum og svissneskum frönkum, og þegar markaðurinn hrundi flúðu fjárfestar í öruggari gjaldmiðla og skildu eftir sig sviðna jörð.

Þrátt fyrir að Ísland uppfylli ekki Maastrichtskilyrðin á þessari stundu, svo skömmu eftir fall bankakerfisins, ráðgerir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að stoppað verði upp í hallarekstur ríkissjóðs á næstu tveimur árum, verðbólga fari niður í 2% og skuldir ríkisins verði komnar niður í 92,6% af landsframleiðslu.

Ef það gengur eftir gæti Ísland verið á réttri leið til að uppfylla Maastrichtskilyrðin undir lok árs 2011, að því gefnu að verðbólga haldist 2% á árunum 2010-13. Ef spár Alþjóðagjaldeyrissjóðsins standast gæti það flýtt fyrir upptöku evru, að því gefnu að Ísland samþykki aðild að ESB.

Því er haldið fram að umsókn um aðild að ESB hefði í sjálfu sér jákvæð áhrif á trúverðugleika íslensks efnahagslífs, þótt ekki væri vegna annars en þess að framtíðarmarkmiðin væru þá skýr. Og eitt er víst, að skilyrðin sem sett eru í Maastricht eru skynsamleg í sjálfu sér, hvort sem til stendur að taka upp evru eða ekki. Enda er þar kveðið á um litla verðbólgu, lága langtímavexti, lítinn fjárlagahalla og litlar skuldir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina