„Ég held að upptaka evru með inngöngu í ESB sé eini raunhæfi kosturinn sem við höfum í stöðunni,“ segir Kristín Pétursdóttir, forstjóri Auðar Capital.
„Ég held að upptaka evru með inngöngu í ESB sé eini raunhæfi kosturinn sem við höfum í stöðunni,“ segir Kristín Pétursdóttir, forstjóri Auðar Capital. „Ef við ætlum að byggja upp fyrirtæki og atvinnulíf hér til framtíðar, sem á möguleika í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi verðum við einfaldlega að fara þessa leið. Ég held líka að allt tal um einhliða upptöku evru sé út úr korti, því fylgi gríðarlega mikil áhætta og það sé mikil skammsýni að halda að það sé lausn fyrir okkur. Ef við ætlum að halda hér öflugum fyrirtækjum til framtíðar verðum við að búa við stöðugri gjaldmiðil og ég held að allir séu sammála um það.“
– Ekki þó allir?
„Mjög margir getum við sagt,“ svarar hún. „En hinsvegar finnst mér umræðan meira um það hvort við getum gert það einhliða eða verðum að ganga í ESB en flestir eru á því að við getum ekki búið við krónu.“
– Neyðumst við ekki til þess næstu árin?
„Gengi gjaldmiðils byggist á væntingum, trúverðugleika og trausti. Og það er nokkuð sem krónan nýtur ekki í dag. Ef við tökum stefnuna á ESB og evru, þannig að menn trúi því að það sé framundan, mun það skapa meiri ró og færa krónuna í átt til eðlilegra jafnvægisgengis, því markaðir eru drifnir áfram af væntingum. Um leið og menn trúa því að það verði niðurstaðan mun gjaldmiðillinn styrkjast og vextir byrja að lækka.“