Olli Rehn, framkvæmdastjóri stækkunarmála ESB, segir Íslendinga geta dregið ákveðinn lærdóm af því hvernig Finnar tókust á við kreppuna á tíunda áratugnum, en hann hefur meðal annars gegnt stöðu efnahagsráðgjafa forsætisráðherra Finnlands. „Kannski að vissu leyti," segir hann.
„En ég er stjórnmálahagfræðingur og hef gaman af því að bera saman ríki, en á sama tíma er ég mjög varkár, því ég veit jafnvel þótt ákveðnar aðferðir hafi virkað í einu ríki, þá duga þær ekki endilega í öðru. En í grunninn fólst finnska reynslan í því koma á stöðugleika í efnahagslífinu og rétta af fjárlagahalla á nokkrum árum og að marka skýra stefnu um að taka upp evru og verða hluti af pólitísku samráði ESB. Þetta voru grundvallaratriðin, en margt fleira hjálpaði Finnum að komast yfir efnahagskreppuna á tíunda áratugnum og einnig við að byggja upp samkeppnishæfan tækni- og fjarskiptageira. En jafnvel Finnland á enn við erfiðleika að glíma og maður skyldi ekki vanmeta þá, þannig að svarið við spurningunni er já, en það væri óvarlegt að beita nákvæmlega sömu meðulum."