Lagt er til að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu og sett eru fram markmið í aðildarviðræðum í drögum að ályktun um Evrópumál sem lögð verður fyrir flokksþing Framsóknarflokksins á föstudaginn. Samstaða var í nefndinni sem samdi ályktunardrögin um þessa niðurstöðu. 40 til 50 manns tóku þátt í umræðum í nefndinni.
Flokksþingið verður sett kl 10 á föstudagsmorguninn og stendur það fram á sunnudag. 962 fulltrúar munu sitja þingið sem haldið verður í íþróttahúsi Vals á Hlíðarenda. Flokksþingið er hið 30. í röðinni en fyrsta þingið var haldið í lok júní árið 1919 á Þingvöllum.
Alls eiga 962 fulltrúar rétt til setu á þinginu af tæplega 12.000 félagsmönnum í flokknum. Þingfulltrúarnir tilheyra 83 félögum innan flokksins frá öllu landinu. Flestir fulltrúar eru úr Suðurkjördæmi eða 252, þá úr Reykjavík eða 232. Þá kemur Norðvesturkjördæmi með 184, Norðausturkjördæmi með 156 og loks Suðvesturkjördæmi með 138.
Umræður um Evrópumál hefjast eftir hádegi á föstudag og er búist við löngum umræðum. Stendur til að þingið afgreiði Evrópumálið á föstudagskvöldið, áður en umræður hefjast um önnur mál.
Búist er við miklum umræðum og deilum um Evrópumálin milli Evrópusinna og andstæðinga. Auk ályktunardraga nefndarinnar um Evrópumál fyrir flokksþingi hefur Framsóknarfélagið í Austur-Húnavatnssýslu sent frá sér ályktun þar sem aðlid að ESB er hafnað með öllu.
Meðal annarra mála sem rædd verða á flokksþinginu er tillaga um stjórnlagaþing sem nefnd undir forystu Jóns Kristjánssonar fyrrverandi ráðherra laggur fyrir þingið. Á sunnudag fer svo fram kosning formanns, varaformanns og ritara Framsóknarflokksins.