„Það sem kom mér mest á óvart, en kemur sterkt út fyrir flokkinn, var hvað þessi ályktun var samþykkt með miklum meirihluta," segir Einar Mar Þórðarson stjórnmálafræðingur um ályktun á flokksþingi Framsóknarflokks þess efnis að Ísland eigi að hefja aðildarviðræður við ESB.
Tekur hann fram að aðildin sé mun umdeildari en niðurstaðan gefi til kynna og bendir á að í upphafi hafi í ályktuninni verið kveðið á um tilteknar samningsleiðir sem í meðförum flokksþingsins hafi breyst í skilyrði sem hafi gert það að verkum að andstæðingar aðildarviðræðna hafi átt auðveldara með að samþykkja ályktunina.
„Það er alveg ljóst að mörg þessara skilyrða koma ekki til með að nást af því að þau ganga hreinlega gegn Rómarsáttmálanum og eðli ESB."
Spurður um áhrif samþykktarinnar á íslenskt stjórnmálalíf segir Einar það vissulega tíðindi að fram á sjónarsviðið sé kominn annar flokkur sem hafi ESB-aðild á stefnuskránni. „Hins vegar lítur ekki út fyrir að flokkurinn muni hafa bjargir til að fylgja þessari stefnu sinni eftir í nánustu framtíð,« segir Einar og vísar þar til smæðar flokksins.