Valdið að verulegu leyti hjá aðildarríkjunum

Stefán Már Stefánsson, prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands.
Stefán Már Stefánsson, prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Ásdís

Hafa verður í huga að völd Evrópusambandsins eru þau völd sem aðildarríkin hafa fært sambandinu. Þá minnir úrskurður þýska stjórnlagadómstólsins frá árinu 1993 á takmarkanir á valdsviði sambandsins, að sögn Stefáns Más Stefánssonar, prófessors í lögfræði við Háskóla Íslands, sem ræddi umboð, ábyrgð og valdmörk ESB á málþingi í Lögbergi í dag.  

Stefán Már minnti í erindi sínu einnig á að ekki yrðu gerðar breytingar á frumrétti, það er að segja á Rómarsáttmálanum sjálfum, eða öllu því lagakerfi, „nema með samþykki allra aðildarríkjanna“.

„Það er að segja, aðildarríkin sjálf ákveða hversu langt verður gengið. Þetta er auðvitað grundvallaratriði líka. Breytingarnar þurfa að vera í samræmi við stjórnarskrárlegar kröfur aðildarríkjanna.“

Úrsögn úr ESB enn möguleg

Úrsögn úr Evrópusambandinu er að sögn Stefáns Más því enn möguleg. Jafnvel þótt stjórnarskrá Evrópusambandsins, sem franskir og hollenskir kjósendur höfnuðu, hefði verið samþykkt yrðu ofangreind atriði enn eftir, sem að sögn Stefáns Más „kannski sýnir að valdið er þá enn þá hjá aðildarríkjunum að verulegu leyti“.

Hann vísaði því næst til úrskurðar þýska stjórnlagadómstólsins, æðsta dómstigs í Þýskalandi, frá árinu 1993 um Maastricth-samkomulagið, þar sem þróun Evrópusamrunans hefðu verið sett ákveðin skilyrði.

En Maastricht-sáttmálinn var skref í átt til frekari Evrópusamruna, líkt og stjórnarskránni var ætlað að vera og nú síðast arftaki hennar, Lissabon-sáttmálinn, sem Írar höfnuðu í fyrra

„Þetta er auðvitað mjög mikilvægt, því þetta er í fullu gildi í dag.  Þetta er stærsta ríkið sem stjórnar nánast ferðinni.  Dómstóllinn sagði að Evrópurétturinn gæti ekki fengið neinn forgang [yfir landsrétt] nema með skilyrðum.“

Dómstóll Þýskalands mun að hans sögn ávallt gæta þess að grundvallarmannréttindi samkvæmt stjórnarskránni verði ávallt haldin.

Löggjafarsamþykkt nauðsynleg

„Þeir segja í öðru lagi að þeir muni ekki hlíta framsali til evrópskra kerfa nema löggjafarsamþykkt hafi samþykkt viðkomandi lög, það er að segja lög Evrópusambandsins.

Hvað er þá verið að tala um?

Það skapaðist hræðsla út af því að Maastricht-samkomulagið væri stórt spor fram á við og að Evrópusambandið ætlaði í rauninni að taka til sín völd.  Þeir segja að til þess að þeir samþykki lög af þessu tagi, á evrópsku plani, þurfi að vera skírskotun í menningarlegt, pólitískt og félagslegt sjónarmið. Og þegar þetta sé skoðað séu þjóðþingin enn miðstöð lýðræðislegra heimilda.

Þetta er svona ákveðið gult spjalt og það segir:

„Gangið ekki lengra nema þið passið að Evrópusambandið sjálft í menningarlegu, pólitísku og félagslegu tilliti fullnægi þessum lýðræðiskröfum.“

Það er náttúrlega ekki alveg ljóst hvað er átt við en það er alveg klárt gult spjald þarna.  Og svo leggja þeir áherslu á það að ESB haldi sér innan valdmarka sinna,“ segir Stefán Már. 

„Aðalatriðið er að það sem dómstóllinn er að segja er að þið fáið ekkert vald nema það sem stendur í Rómarsamningnum sjálfum, annaðhvort beint eða óbeint.“

Ber saman muninn

Stefán Már ræddi því næst muninn á gömlu stjórnarskrá Evrópusambandsins og Lissabon-sáttmálanum.

„Það hefur mjög lítið breyst nefnilega frá stjórnarskránni, þetta er aðallega flugeldasýning. Ákvæði um svokallaða samningu stjórnarskrár fellur niður, það er alveg klárt.“

Þá sagði Stefán Már ákvæði um sérstaka fána og þjóðsöngva Evrópusambandsins falla niður, sem hann sér ekki að skipti miklu máli. Að hans mati er spurningin um hvort að Evrópusambandið sé ríki langsótt ef völd aðildarríkjanna gagnvart því eru metin. Þetta kalli á aðra spurningu um hinn svokallaða lýðræðishalla.

„Það verður að hafa í huga að Evrópusambandið er ekki ríki, það er eitthvert kerfi sem er alveg sérstaks eðlis, með sínum sérstöku reglum. Ég veit ekki hvort það er sanngjarnt að segja að það verði að vera lýðræði eða fullt lýðræði í slíku kerfi. Ég held þó að aðalatriðið sé að menn vilji að þetta kerfi sé mjög lýðræðislegt.“

mbl.is

Innlent — Fleiri fréttir

Í gær