Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, segir í viðtali við Reutersfréttastofuna að upptaka evru sé rökréttara framhald á leið Íslands í átt að fjármálastöðugleika frekar en taka upp gjaldmiðilssamband við Norðmenn.
Gylfi segir, að efasemdir séu um það á Íslandi að ganga í Evrópusambandið, einkum vegna sjávarútvegsstefnu ESB sem margir Íslendingar vilji ekki undirgangast.
„En ef við viljum fá trúverðugan gjaldmiðil með trúverðugan seðlabanka sem bakhjarl virðist evran vera rökréttasti kosturinn. Það kunna að vera aðrir kostir, þar á meðal einhversskonar samkomulag við Noreg, en að mínu áliti er slíkt langsótt."
Gylfi segir að það kunni að taka tíma áður en Ísland getur tekið upp evru. Hins vegar gæti aðild að evrópska gengissamstarfinu, svonefndu ERM II, verið fyrsta skrefið.
„Við vildum væntanlega taka svolítið til hjá okkur fyrst og fara að með réttum hætti með aðild að gengissamstarfinu... þar sem við lögum í raun hagkerfið okkar, þar á meðal vexti og verðbólgu, að evrusvæðinu."
Þetta gæti veitt íslenska hagkerfinu nauðsynlegan trúverðugleika. „Með því að vera á leið að evrunni, gegnum framdyrnar, myndi senda skýr boð og væntanlega róa markaðina," segir hann.
Gylfi segir, að best væri að láta markaðinn um hvað væri viðunandi gengi krónunnar við inngöngu í ERM.