Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri, sagði á aðalfundi Samorku í dag, að ekki sé hægt að halda fram að hugsanleg full aðild Íslands að Evrópusambandinu myndi hafa veruleg áhrif á stöðu Íslendinga og möguleika varðandi yfirráðarétt og nýtingu jarðrænna auðlinda.
Haft er eftir Guðna á heimasíðu Samorku, að hugsanlegar aðildarviðræður þyrftu að byggja á nákvæmri greiningu á þeirri aðlögun að reglum ESB sem þegar hafi verið samið um og þeim reglum sem eftir er að semja um. Fyrirkomulag eignarhalds náttúruauðlinda væri hins vegar ekki viðfangsefni ESB, heldur alfarið á hendi aðildarríkjanna.
Fram kom hjá Guðna að á annan tug erlendra fyrirtækja hafa nú þegar óskað upplýsinga vegna hugsanlegrar olíuvinnslu á Drekasvæðinu.
Franz Árnason var endurkjörinn formaður Samorku á fundinum í dag. Stjórnina skipa því áfram,
auk Franz, þeir Friðrik Sophusson Landsvirkjun, Hjörleifur B. Kvaran
Orkuveitu Reykjavíkur, Júlíus Jónsson Hitaveitu Suðurnesja, Páll
Pálsson Skagafjarðarveitum, Tryggvi Þór Haraldsson Rarik og Þórður
Guðmundsson Landsneti.