Hannan: Fagnar minna fylgi ESB-aðildar meðal Íslendinga

Daniel Hannan
Daniel Hannan

Daniel Hannan, þingmaður breska Íhaldsflokksins á Evrópuþinginu, fer mikinn á bloggi sínu á vef Telegraph í dag er hann fjallar um Íslendinga og þeir séu að verða afhuga Evrópusambandsaðild. Segir hann að Íslendingar séu duglegasta fólk sem hann hafi hitt á lífsleiðinni og um leið sjálfstæðasta. Því komi það honum ekki á óvart að Íslendingar séu að verða afhuga því að sækja um aðild að ESB.

Hannan, sem hefur heimsótt Ísland reglulega síðustu fimmtán árin, segir að dugnaður Íslendinga komi ekki á óvart miðað við þær aðstæður sem ríki á Íslandi þar sem myrkur ríki helminginn af árinu.

Hannan vísar til þess að félagi hans á Íslandi sendi honum reglulega upplýsingar um skoðanakannanir sem gerðar eru á Íslandi um mögulega ESB-aðild og upptöku evru. Segir hann að fyrir fjórum mánuðum hafi 80% þjóðarinnar viljað sækja um ESB og evruna en nú einungis 40%. Það komi sér ekki á óvart þar sem hann hafi vitað að um leið og mesta skelfingin liði hjá eftir hrunið þá myndu Íslendingar ná áttum á ný.

Hannan segir að það komi á óvart hversu tilfinningaríkir Íslendingar séu og undir niðri séu þeir ástríðufullir. En þær stundir komi upp þegar upp úr eldfjallinu, sem í þeim býr, gjósi og harðar tilfinningar skelli á sem öldurót reynslu þeirra. En um leið og sólin fer að skína á ný og daginn tekur að lengja þá nær skynsemin yfirhöndinni, skynsemi sem hefur haft yfirhöndina hjá þessari fiskimanna- og bændasamfélagi í þúsund ár.

Hannan telur upp í bloggskrifum sínum alla þá ókosti sem fylgja Evrópusambandsaðild fyrir Íslendinga en grein hans er hægt að lesa í heild hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag