ASÍ: Ný ríkisstjórn fái umboð til ESB viðræðna

Gylfi Arnbjörnsson.
Gylfi Arnbjörnsson. Friðrik Tryggvason

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir mikilvægt að Evrópumálin verði á dagskrá í kosningabaráttunni þannig að ný ríkisstjórn fái skýrt umboð til þess að fara í viðræður. „Það er mat okkar að slíkar aðildarviðræður skipti afar miklu mála núna. Þær eru helsta forsenda þess að við getum aukið hér traust og tiltrú á íslenskt hagkerfi, þannig að viðreisn efnahagslífsins gangi hratt og vel fyrir sig."

Þetta kemur fram í forsetabréfi Gylfa á vef Alþýðusambands Íslands.

Leggja þarf grundvöll undir stöðugleika

Hann segir að miðstjórn ASÍ muni á auka ársfundi þann 25. mars n.k. setja fram stefnu sína og sýn varðandi viðreisn hins nýja Íslands. „Lykilatriði í þeirri stefnu hlýtur að vera ákall til stjórnmálanna um að lagður verði grundvöllur að varanlegum og trúverðugum stöðugleika fyrir íslenskt launafólk. Þetta á jafnt við um stöðugleika á sviði félags- og velferðarmála sem og efnahags- og atvinnumála.

Við hljótum að krefjast þess að heimilin í landinu búi við lága verðbólgu og sambærileg kjör við fjármögnun íbúðarhúsnæðis og þekkist í nágrannalöndum okkar. Þetta þýðir hóflega óverðtryggða vexti, í stað þeirra okurkjara sem nú bjóðast. Þetta eitt og sér er mikilvægasta hagsmunamál heimilanna."

Hefur áhyggjur af því hvernig umræðan hefur þróast

Gylfi segir það mikið áhyggjuefni hvernig umræðan hér á landi er aftur farin að snúast um að Íslendingar geti risið upp úr kreppunni á sama grundvelli og áður en að nú þurfum við bara að vanda okkur betur.

„Í þeirri umræðu gleymist að herkostnaður þjóðarinnar af sjálfstæðri mynt er mikill óstöðugleiki, mikil verðbólga og háir vextir. Þetta þýðir að íslenskt launafólk býr við meiri lífskjarasveiflur en þekkjast í öðrum löndunum. Svo að ekki sé talað um þá varanlegu lífskjaraskerðingu sem felst í þeim himinháu vöxtum sem við þurfum að greiða ofaná verðtryggingu.

Í því samhengi er rétt að benda á að fyrir bankahrun áætluðu sérfæðingar að við greiddum að jafnaði 3-3,5% hærri vexti vegna þess að við byggjum við litla og óstöðuga mynt. Slíkir aukavextir kosta okkur 120-130 milljarða króna á ársgrundvelli. Nú eftir hrunið þegar krónan hefur fallið um ríflega 80% má gera ráð fyrir að þessu vaxtamunur verði enn meiri – trúlega yfir 5%.

Þá er reikningurinn farin að nálgast 200 milljarða króna. Þetta jafngildir hvorki meira né minna en 25% af öllum launum í landinu! Það gefur auga leið að þessi kostnaður mun leggjast á almenning í formi lægri launa, hærra verðlags, hærri skatta og/eða lægra þjónustustigs hins opinbera. Erum við tilbúin til þess að sætta okkur við það?," skrifar Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.

Sjá forsetabréfið í heild

mbl.is

Innlent — Fleiri fréttir

Í gær

Laugardaginn 21. desember