Flestir vilja aðildarviðræður

Reuters

Stuðningur við aðildarviðræður að Evrópusambandinu hefur sjaldan verið meiri ef marka má nýja könnun Samtaka iðnaðarins, en samkvæmt henni vilja þrír af hverjum fjórum Íslendingum taka upp aðildarviðræður. Stuðningurinn hefur því ekki mælst meiri í sex ár. Á hinn bóginn sýna niðurstöðurnar að fleiri segjast nú vera andvígari aðild en þeir sem segja hlynntir aðild að ESB.

Úrtak könnunarinnar, sem Capacent Gallup framkvæmdi, var 1.350 manns og svarhlutfall 65,2%. Niðurstöðurnar sýna að stuðningur við aðildarumræður hefur vaxið töluvert síðustu mánuði eða frá því sambærilegu könnun var framkvæmd  í ágúst 2008.  Alls sögðust rúm 64% vera hlynnt aðildarviðræðum en 28% þeim andvíg og tæp 8% hlutlaus.

Þegar kemur að upptöku evrunnar er niðurstaðan einnig ótvíræð, því 55% aðspurðra segjast hlynntir því að taka upp evru sem gjaldmiðil í stað íslensku krónunnar. Að sama skapi eru mun fleiri, 45% þeirrar skoðunar að aðild að ESB muni hafa jákvæð áhrif á eigin lífskjör og 48% telja að það væri gott fyrir efnahag þjóðarinnar í heild.  

Þrátt fyrir þetta dalar fjöldi þeirra sem segjast hlynntir aðild, en þeim fjölgar sem eru andstæðir aðild. Í fyrsta skipti í sex ár eru þeir nú fleiri sem eru andvígir aðild, eða 45,5%, en þeir sem eru hlynntir henni eru nú 39,7%.  Á síðu Samtaka iðnaðarins kemur fram að ekki sé gott að átta sig á því hvers vegna þeim fjölgar sem vilja aðildarviðræður, á sama tíma og þeim fækkar sem eru reiðubúnir að lýsa sig hlynnta aðild.  Það sýnist þó a.m.k. ljóst að bæði andstæðingar aðildar og stuðningsmenn vilji leiða málið til lykta með viðræðum og síðan taki þjóðin afstöðu í þjoðaratkvæðagreiðslu þegar samningur liggur fyrir í endanlegri mynd.

mbl.is

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær

Loka