Vill sátt flokka um næstu skref í ESB málinu

Þingfundur á Alþingi hófst kl 12 með umræðum um aðild að Evrópusambandinu undir liðnum störf þingsins. Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að næsta stóra skref í málinu væri að ná góðri sátt allra flokka um hvort sækja ætti um aðild.

Valgerður Sverrisdóttir Framsóknarflokki hóf umræðuna og beindi spurningu til Bjarna um afstöðu hans til ESB, þar sem hann hefði nú gefið kost á sér til forystu í Sjálfstæðisflokknum. 

Bjarni sagðist ávallt hafa haft miklar efasemdir um að ásættanlegar niðurstöður næðust í aðildarsamningum við ESB og stefna Sjálfstæðisflokksins væri sú að heildarhagsmunum Íslands væri betur borgið fyrir utan sambandið. Nú væru hins vegar tvær ástæður til að endurnýja þetta hagsmunamat. Endurnýja þyrfti peningastefnuna og endurskoða stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna eftir brotthvarf varnarliðsins. Bjarni sagði að nú væri tækifæri fyrir alla flokka að ná samkomulagi um hver yrðu næstu skref í málinu. Sjálfsagt væri að þjóðin greiddi atkvæði um málið.

Nokkrar umræður urðu um málið í framhaldi af svari Bjarna. Helgi Hjörvar Samfylkingu sagðist fagna ítrekuðum yfirlýsingum Bjarna um að rétt sé að sameina flokkana um að leggja fram aðildarumsókn og sagði Helgi að þetta sýndi leiðtogahæfileika Bjarna.

Pétur Blöndal Sjálfstæðisflokki sagði að Evrópusambandið væri að þróast mjög hratt í þá átt að verða risaríki. Ísland yrði þá eins og smáhreppur innan þess. Enginn skilningu væri innan sambandsins á hagsmunum Íslendinga.  

Valgerður Sverrisdóttir sagðist taka undir að ná þyrfti góðri sátt á milli flokkanna í málinu en henni heyrðist málflutningur annarra sjálfstæðismanna benda til að Bjarni muni eiga fullt í fangi með að ná sátt um skoðanir hans í eigin flokki.

mbl.is

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær