Segir samlíkingu við Ísland fáránlega

Írski fjármálaráðherrann segir samanburð Íslands og Írlands fáránlegan
Írski fjármálaráðherrann segir samanburð Íslands og Írlands fáránlegan Reuters

Írski fjármálaráðherrann, Brian Lenihan, segir það  fáránlegt að líkja efnahag Írlands við þann íslenska og harðneitar því að Írar þurfi á láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að halda. Hann mun á morgun eiga fund með Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, þar sem fjármálakreppan verður rædd.

Lenihan segir í viðtali við Guardian að hann sjái enga þörf á aðstoð frá IMF og að stjórnvöld á Írlandi myndu taka erfiðar ákvarðanir til þess að vinna bug á hallarekstri ríkissjóðs. „Ríkið er í góðri stöðu til þess að fjármagna sig sjálft," sagði Lenihan í viðtalinu.

Einhverjir sérfræðingar hafa líkt Írlandi við Ísland að undanförnu vegna bágrar stöðu ríkjanna beggja. Lítið fer fyrir þeim mikla hagvexti sem einkenndi Írland á síðasta áratug og atvinnuleysi mælist um 10%. Alþjóðleg matsfyrirtæki hafa hótað því að lækka lánshæfismat írska ríkisins sem þýðir að öll lántaka verður mun kostnaðarsamari en áður.

Aðild að myntbandalaginu skiptir sköpum

En í viðtali við Guardian segir Lenihan að ekki sé sanngjarnt að líkja Írlandi við Ísland. „Þessi samlíking við Ísland er ósanngjörn þar sem Ísland er ekki hluti af evrusvæðinu, það er ríki með eigin gjaldmiðil, eigin seðlabanka og var ekki með neitt sérstaklega lífvænlegt hagkerfi." 

Hann segist vita það að það sé fiskiðnaður og annar iðnaður á Íslandi en landið treysti um of á bankakerfið þar sem gróðabrall réði ríkjum. „Þetta er fáránlegur samanburður. Við erum innan evrusvæðisins, með evrópska seðlabankann á bak við okkar gjaldmiðil og evrópski bankinn hefur veitt írska bankakerfinu mikinn stuðning hvað varðar greiðslugetu þess," segir Lenihan í viðtalinu við Guardian.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Viðskipti — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær

Mánudaginn 20. janúar

Sunnudaginn 19. janúar

Laugardaginn 18. janúar

Föstudaginn 17. janúar