Í stjórnmálaályktun sem samþykkt var á landsfundi Samfylkingarinnar í gær segir meðal annars að hagsmunum Íslendinga eftir kosningar sé best borgið með félagshyggjustjórn sem sæki um aðild að Evrópusambandinu (ESB). Þar er því tekið undir orð ályktunar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs (VG) frá 22. mars um myndun félagshyggjustjórnar eftir kosningar. Ljóst er að flokkarnir munu að öllu óbreyttu leitast við að mynda ríkisstjórn eftir kosningar.
Á heildina litið eru málefni flokkana tveggja lík. Báðir flokkar boða aðgerðir á borð við frystingu lána og aukið tillit til skuldara við innheimtuaðgerðir hins opinbera til að aðstoða heimilin í landinu. VG vill jafnframt afnema verðtryggingu.
Þá vilja flokkarnir afla tekna með skattastefnu sem tryggir „réttláta“ dreifingu byrða og hafa velferðarmál í forgrunni þegar kemur að útdeilingu opinberra útgjalda. Báðir flokkar líta ennfremur svo á að verðmætasköpun í atvinnulífinu sé undirstaða endurreisnar efnahagslífsins. Samfylkingin vill að mótuð verði heildstæð sóknarstefna fyrir íslenskt atvinnulíf með það að markmiði að Ísland verði komið í hóp tíu samkeppnishæfustu þjóða heims fyrir 2020. VG vill leggja áherslu á að skapa störf um allt land og vill að ríki og sveitarfélög horfi til mannaflsfrekra framkvæmda og viðhaldsverkefna.
Markmið flokksins er að fyrir lok næsta árs hafi atvinnulausum fækkað um helming frá því sem nú er.