Efnahagsleg rök duga ekki til

Fánar Evrópusambandsins blakta utan við höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar ESB í Brussel.
Fánar Evrópusambandsins blakta utan við höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar ESB í Brussel. mbl.is/GSH

Dr. Martin Marcussen, dósent við Kaupmannahafnarháskóla, sagði á morgunverðarfundi sem boðað var til af átta evrópskum millilandaráðum á sviði viðskipta að til lengri tíma dygðu efnahagsleg rök ekki þeim sem tala fyrir aðild ríkja að Evrópusambandinu. Pólitísk rök skiptu ekki síður máli.

 Marcussen minnti á að þegar Danir ræddu aðild að í ESB árið 1972 hefði umræðan að stórum hluta snúist um matvælaverð, s.s. um  hvort kaffið yrði dýrara eða ódýrara. Síðan hefði fólk áttað sig á því að ESB snerist um margt fleira, m.a. um hápólitísk atriði. Mörgum hafi því þótt sem stjórnmálamenn hafi beitt blekkingum í umræðunni og afleiðingin væru sú að vantraust hefði skapast milli stjórnmálamanna og almennings. Danskir stjórnmálamenn sypu því enn seiðið af þeirri umræðu sem fór fram árið 1972.

Marcussen sagði að það sem hefði komið Dönum mest á óvart var hversu Evrópudómstóllinn hefur mikil áhrif innan ESB. Um þessar mundir væri mikið rætt um hvort Danir gætu haldið úti hinu öfluga heilbrigðiskerfi í ljósi þess að íbúar hvaðanæva að úr ESB geti sest að í Danmörku og þar með aflað sér sömu réttinda til heilbrigðisþjónustu og þeir sem fyrir eru. Einnig sé óvíssa um hvort stíf löggjöf Danmerkur á sviði innflytjendamál fái staðist lög ESB.

mbl.is
Loka