Vaxtaávinningur af ESB-aðild: 228 milljarða lækkun

Evrópusambandið, höfuðstöðvar, Brussel.
Evrópusambandið, höfuðstöðvar, Brussel. AP

Það myndi skila íslenskum heimilum, fyrirtækjum og íslenska ríkinu og sveitarfélögum lækkun vaxtagjalda sem nemur 228 milljörðum króna á hverju ári, ef vaxtakjör bötnuðu um þrjú prósentustig við Evrópusambandsaðild. Þetta kemur fram í útreikningum sem Þórður Magnússon, stjórnarformaður Eyris Invest, lét gera og sendir voru til Samtaka iðnaðarins og Samtaka atvinnulífsins (SA) að loknum aðalfundi SA.

Á fundinum lýstu stjórnendur fyrirtækja yfir miklum áhyggjum af háu vaxtastigi en stýrivextir Seðlabanka Íslands eru nú 15,5 prósent. Á skömmum tíma hafa þeir lækkað lítillega. Farið úr 18 prósentum niður í það sem þeir standa í nú.

Þórður segir vaxtastigið vera „óskiljanlega hátt“ og það geti ekkert annað verið, en að Seðlabanki Íslands skilji ekki hversu alvarleg vandamál skapast af þessu háa vaxtastigi, bæði fyrir heimili og fyrirtæki. Ekkert réttlæti svo háa vexti og það gefi augaleið að fyrirtæki og heimili þoli ekki vaxtastigið.

Þór Sigfússon, formaður stjórnar Samtaka atvinnulífsins, segir forsvarsmenn fyrirtækja vera reiða, en jafnframt „hálfskelkaða“ vegna þess hve háir vextirnir eru í því árferði sem nú ríkir. „Vextirnir eru alltof háir, það gefur augaleið. Það er lítil sem engin eftirspurn í hagkerfinu, verðbólgan á undanhaldi og stíf gjaldeyrishöft til þess að verja gjaldmiðilinn frekara falli. Það réttlætir ekkert þessa háu vexti. Það sem nú er orðið mjög alvarlegt er að þau fyrirtæki sem hafa staðið traustum fótum, þrátt fyrir hremmingarnar í vor, eru að lenda í vandræðum í raun vegna þessa fráleita vaxtastigs.

Vilhjálmur Egilsson [framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins innsk. blm.] og við sem höfum verið í forsvari fyrir Samtök atvinnulífsins höfum margbent á hversu alvarleg vandamál skapast af þeim háu vöxtum sem hér hafa verið. Menn hefðu mátt hlusta betur, og ættu auðvitað að gera enn. Þetta gengur ekki,“ sagði Þór í samtali við Morgunblaðið í gær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær

Loka